Undirbúningur vegna tilfærslu sjúkraflutningareksturs úr höndum Rauða krossins er langt kominn og nokkrir aðilar tilbúnir að taka verkefnið að sér. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðjóns S. Brjánssonar um sjúkraflutninga.
Ekki er hægt að veita nánari upplýsingar á þessu stigi en „þessi þáttur skýrist fljótlega,“ segir í svari ráðherra. Til verkefnisins verði valinn traustur aðili sem mun vinna eftir kröfulýsingu og samningi sem tryggja á gæði þjónustu. Í nýjum samningi sé miðað við að umsýsluaðila til ráðgjafar verði einstaklingar sem besta þekkingu hafi á sjúkraflutningum í landinu.
Við þeim hluta fyrirspurnarinnar sem snýr að kostnaðaráætlun segir að ágreiningur hafi verið á milli velferðarráðuneytisins og Rauða krossins um fjárhagslegt mat vegna loka samningsins og hafi aðilar því orðið ásáttir um að fá hlutlausan aðila til að gera slíkt mat. Matsaðili hafi enn ekki skilað niðurstöðu og því sé enn óvissa um kostnað við tilfærsluna.
Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að velferðarráðuneytið undirbúi nú heildstæða stefnumótun vegna sjúkraflutninga þar sem tekið verði mið af auknu mikilvægi þeirra.