Sakar meirihlutann um blekkingar

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vísar útskýringum fjármálaráðherra á bug …
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vísar útskýringum fjármálaráðherra á bug og segir fordæmalust að lækka boðaða hækkun til öryrkja. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er fullkominn útúrsnúningur og blekkingarleikur hjá ráðherranum. Það stendur alveg skýrum stöfum frá þessum sama ráðherra að það stendur til að lækka fyrirhugaða fjáraukningu til öryrkja,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og annar varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is um útskýringar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um hvers vegna framlög til öryrkja hækki minna á næsta ári en áætlað var í september.

„Þetta áttu að vera fjórir milljarðar. Hin boðaða hækkun til öryrkja var fjórir milljarðar til öryrkja og það stendur skýrum stöfum að hún verði 2,9 milljarðar. Það fordæmalaust að menn séu að lækka milli umræðna í fjárlögum til þessa hóps. Yfirleitt er fjárlaganefnd að bæta í og væntingar Öryrkjabandalagsins voru á þá leið,“ segir Ágúst Ólafur.

Hann vísar einnig orðum Willum Þórs Þórssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og formanns fjárlaganefndar, á bug, en Willum sakaði Ágúst Ólaf fyrr í dag um að stunda ljóta pólitík.

„Hann [Willum] er bara að taka þátt í þessum blekkingarleik. Það er lækkun frá boðaðri fjáraukningu til öryrkja. Mér finnst pólitíkin verða ljót af hálfu meirihlutans ef þeir telja að öryrkjar af öllum hópum eigi að fá þennan niðurskurð af því sem var búið að boða í frumvarpi sem er aðeins tveggja mánaða gamalt. Svo ég vísa þessu til föðurhúsanna,“ segir Ágúst Ólafur.

Bjarni sagði í dag minni aukningu framlags tengjast því að boðaðar kerfisbreytingar munu ekki taka gildi fyrsta janúar og því er eðlilegt að umrædd upphæð til öryrkja verða minni á árinu, en hækkanir taka mögulega gildi við lok fyrsta ársfjórðungs.

„Segjum sem svo að þeir þurfi meiri tíma til þess að breyta kerfinu sem snýr að öryrkjum. Það eru fjölmörg dæmi þess að slíkar breytingar eru afturvirkar. Þó að kerfið yrði tilbúið í mars, er fordæmi fyrir því að breytingin gæti haft gildi frá fyrsta janúar.Þá hefði verið staðið við þau fyrirheit að öryrkjar fengju fjóra milljarða árið 2019,“ staðhæfir Ágúst Ólafur. „Launahækkun þingmanna virkaði meira að segja afturvirkt,“ bætir hann við.

Skortur á skýringum

Bæði Bjarni og Willum hafa sagt tafir á framkvæmdum meðal ástæðna þess að fjárheimildir verði ekki jafn háar og boðaðar voru í september þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt. Spurður um þessar skýringar segir Ágúst Ólafur eðlilegar ástæður vera að baki framlaga vegna byggingu nýs Landsspítala, þar sem framkvæmdum seinkar.

Hann segir hins vegar ekki liggja fyrir fullnægjandi skýringar á því hvers vegna milljarði minna sé áætlað í uppbyggingu hjúkrunarheimila. „Það er líka eitthvað sem snertir Landsspítalann með beinum hætti vegna þess að það eru margir sem búa á Landsspítalanum en eiga ekki að vera þar,“ staðhæfir þingmaðurinn

„Gjöldin og tekjurnar eru ekki að breytast mikið milli umræðna. Það sem við gagnrýnum er að öryrkjar, hjúkrunarheimili, samgöngumál og framhaldsskólastigið séu að fá niðurskurðarhnífinn á meðan aðrir þættir gera það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka