Það er óhætt að segja að stemningin hafi verið góð í Árbæjarskóla í gær en kvöldið áður stóð skólinn uppi sem sigurvegari í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanemenda í Reykjavík.
Allir grunnskólar með unglingadeild geta sent frá sér eitt atriði í keppnina. Alls tóku 26 skólar þátt í undankeppninni í ár og kepptu átta skólar til úrslita á lokakvöldinu.
Er þetta annað árið í röð sem Árbæjarskóli vinnur keppnina en þar áður sigraði skólinn síðast árið 1991. Skólastjórnendur minntust þess, þegar blaðamaður kom við í gær, að annað sætið sem skólinn hafnaði í árið 2016 hefði verið eins og sigur á sínum tíma. Nú eru hins vegar nemendur á unglingastigi skólans sem þekkja ekkert annað en verðlaunasæti í þessari stærstu hæfileikakeppni grunnskólanna.
Atriði Árbæjarskóla í ár hét „Gott, betra, best“ og fjallaði um samvinnu. Bauð skólinn hópnum sem tók þátt í Skrekk upp á pítsu í gær til að fagna árangri nemendanna eftir margra vikna vinnu.
Sjá frásögn af sigurstemningunni í Árbæjarskóla í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.