Tókust á um framlög til öryrkja

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég kem hér upp í ræðustól með óbragð í munni, ég fékk ekki einu sinni sólarhring til þess að fagna þessu frumvarpi,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag. Tilefni ummæla hans var lækkun fyrirhugaðrar hækkunar til öryrkja og sagði hann að aðrir hópar en veikt og slasað fólk njóti forgangs.

Talverðar umræður urðu um örorkubótakerfið við óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag. Spurðu þingmenn sérstaklega út í skýringar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á því að aukning framlags til öryrkja yrði minni en upphaflega var gert ráð fyrir.

Þá urðu orðaskipti milli Guðmundar Inga og Bjarna og sagði Guðmundur Ingi að fjármálaráðherra hefði lofað fjórum milljörðum. Skaut Bjarni þá inn í úr sal: „í kerfisbreytingar“. Guðmundur Ingi vísaði því á bug og sagði það ekki hafa komið fram í fyrri yfirlýsingum fjármálaráðherra að kerfisbreytingar væru liður í boðaðri aukningu.

Fjármálaráðherra svaraði síðan fyrirspurn Guðmundar Inga: „Hvernig sér háttvirtur þingmaður fyrir sér að við fjármögnum kerfisbreytingarnar ef við ákveðum núna um áramótin að verja öllu því sem hefur verið tekið til hliðar til þess að verja réttindaaukningu öryrkja, [...] án þess að gera breytingar á kerfinu verður ekkert eftir til kerfisbreytinganna. Verði það staðan munu sumir fá meira en aðrir minna. Er það það sem háttvirtur þingmaður er að tala um?“

Sagði Bjarni síðan þingmanninn misskilja málið og fullyrti að dregið yrði úr skerðingum í nýju kerfi.

Ómöguleg verkstjórn

Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Ljósmynd/Alþingi

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, sagði óskiljanlegt að fresta kjarabót öryrkja á þeim grundvelli að nefnd á vegum ráðherra hefði „ekki staðið sig í stykkinu“ og spurði hún hvort ekki væri hægt að bæta kjör öryrkja þrátt fyrir að umræddar kerfisbreytingar hefðu ekki átt sér stað. „Ómöguleg verkstjórn félagsmálaráðherra á ekki að bitna á öryrkjum.“

Bjarni sagði hins vegar liggja fyrir að meirihluti fjárlaganefndar væri að auka framlög til öryrkja um fimm milljarða. Engu að síður væri mikilvægt að vinnu við kerfisbreytingu yrði að fara að ljúka þar sem það væri forsenda þess að hægt yrði að koma til móts við tekjulægsta hópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert