Ráðherra keyrði hringinn á Vatnsnesvegi

Sigurður Ingi í fór vettvangsferð og keyrði hringinn á Vatnsnesvegi.
Sigurður Ingi í fór vettvangsferð og keyrði hringinn á Vatnsnesvegi. mbl.is/​Hari

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segist hafa fundið fyrir mikilli samstöðu íbúa, ekki aðeins á Vatnsnesi, heldur á öllu svæðinu, og sveitarstjórnar um umbætur á Vatnsnesvegi. „Samstaða hjálpar alltaf til þegar við þurfum að úthluta fjármagni og forgangsraða,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hann var ánægður með fund sem hann sótti með íbúum svæðisins á Hótel Hvítserk í gær. „Mér fannst fundurinn góður, krafa íbúanna um umbætur sanngjörn og mér fannst þeir setja mál sitt fram með skynsamlegum og sanngjörnum hætti.“

Á leið sinni á fundinn fór Sigurður Ingi í vettvangsferð og keyrði hringinn á Vatnsnesvegi. „Ég tek undir með íbúunum um það að það verður ekki skemmtilegt að keyra þennan veg í vetur.“

„Þau svör sem ég gat veitt voru þau að við erum sannarlega að auka fjármagn, sérstaklega í viðhald og lagfæringar, og reyndar þjónustu líka,“ segir Sigurður Ingi, og að hann sjái ekki fram á annað en að mál Vatnsnesvegar séu á réttri leið. „Það er hins vegar talsvert verkefni að  byggja þennan veg upp, sennilega upp á 3,5 milljarða, ef við værum að byggja upp veg með öllum ýtrustu kröfum um breidd og burðarlag.“

„Við fórum yfir það á fundinum hvaða leiðir væru líklegastar til árangurs. Ég tel að það sé blönduð leið og mér fannst íbúarnir hafa skilning á því,“ segir Sigurður Ingi. Vegagerðin hafi einnig verið á fundinum og fram kom að hún væri boðin og búin til þess að hefla veginn undir veturinn þegar þornar, en vegurinn er of blautur til þess eins og stendur.

„Umferð hefur sannarlega aukist og þarna er alltof há tíðni óhappa og slysa. Til þess þarf að líta og ég bið Vegagerðina að hugsa sérstaklega til þess varðandi forgangsröðun á fjármagni sem veitt hefur verið til tengivega.“

„Ef allir Húnvetningar og Skagfirðingar leggja áherslu á að þetta sé sá tengivegur sem helst þurfi á þessu landsvæði þá hljótum við að skoða það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert