Verið er að undirbúa að setja flutningaskipið Fjordvik í flotkví í Hafnarfjarðarhöfn. Búið er að gera allar þær ráðstafanir sem til þarf, meðal annars að þyngja skipið að framan til að rétta það af, auk þess sem búið er að koma olíuvarnargirðingum og öðru fyrir. Alls eru á annað hundrað tonn komin framan á skipið.
Að sögn Lúðvíks Geirssonar, hafnarstjóra í Hafnarfjarðarhöfn, ætti verkefninu að verða lokið um hádegisbilið í dag. Þar með lýkur hinu eiginlega björgunarstarfi í tengslum við skipið, sem strandaði í Helguvík í byrjun mánaðarins.
Spurður út í næstu skref segir hann að dæla þurfi olíu sem er í vélarrýminu og víðar í skipinu yfir í dráttarskip á meðan verið er að lyfta skipinu. „Við erum að reyna að ná sem mestri olíu úr því áður en það er komið á þurrt,“ segir Lúðvík.
Eftir það verður ástandið á skrokknum skoðað og farið verður í þær viðgerðir sem þarf til að gera skipið sjóhæft og hægt verður að koma því aftur yfir hafið.
Lúðvík segist ekki vita hvenær hægt verður að sigla skipinu en bætir við að viðgerðin verði „örugglega töluverð“.