Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað kröfu fimm sakborninga af sjö í gagnaversmálinu um að máli þeirra verði vísað frá. Verjendur mannanna töldu að réttindi þeirra hefðu ekki verið virt og að rannsakendur hefðu beitt ólögmætum aðferðum til að afla sér upplýsinga við rannsóknina.
Greint er frá því á vef Rúv.is að enginn sakborninganna hafi verið viðstaddur þegar úrskurður var kveðinn upp í dag. Aðalmeðferð gagnaversmálsins hefst 3. desember.
Í greinagerð verjenda sagði að lögreglan á Suðurnesjum hafi svifist einskis við að afla sér upplýsinga um samskipti verjenda og sakborninga í málinu.
Meðal annars hafi fyrrverandi eiginkona annars verjandans verið spurð ítarlega út í samskipti verjandans og skjólstæðings hans.
Einnig er bent á það í greinargerðinni að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi haldlagt farsíma Þorgils Þorgilssonar, verjanda Sindra Þórs Stefánssonar, við skýrslutöku 17. apríl eftir að Sindri Þór fór á brott úr landi.