Hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara fjölgar um 200 á næstu tveimur árum. Á næsta ári átti að verja 45,9 milljörðum í málaflokkinn en nú stendur til að sú upphæð verði 733,6 milljónum lægri.
Í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir að ný hjúkrunarheimili verði tekin í notkun skömmu eftir áramót bæði í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. Á Seltjarnarnesi er þar með að rísa fyrsta hjúkrunarheimilið og þar verður pláss fyrir 40 íbúa.
Á Alþingi stendur yfir önnur umræða um fjárlög. Þessar nýju tölur eru kynntar sem liður í þeirri umræðu. Hart er tekist á um þetta: Samfylkingin leggur til dæmis til að hækka útgjöld í þessum málaflokki um milljarð, frekar en að lækka þau.
„Framkvæmdirnar eru,“ segir í tilkynningunni „að hluta til [til] þess fallnar að bæta aðbúnað og mæta úreldingu hjúkrunarrýma þar sem aðbúnaður hefur ekki staðist nútímakröfur.“
Útgjöld ríkisins í stofnanaþjónustu aldraðra áttu að verða 45,9 milljarðar 2019 en nú kemur annað í ljós. 733,6 milljónum lægri útgjöld eru útskýrð í tilkynningunni þannig, að 276,4 milljónir þessara 733 fari í eiginlegan rekstur rýmanna frekar en uppbyggingar. Því nemi lækkunin í raun aðeins 457,2 milljónum króna og sú lækkun stafi af frestaðri útgjaldaþörf. Í tilkynningunni er lögð áhersla á að þetta sé aðeins 1% lækkun af heildarfjárheimild málaflokksins.