Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vandar Samfylkingunni ekki kveðjurnar í færslu sem hann birti á Facebook. Hann segir að Samfylkingin telji ekki nóg að gert í fjárlögum næsta árs. Þau vilji hins vegar auka útgjöldin á sama tíma og þau tali krónuna niður og verðbólguna upp.
Samfylkingin boðaði til blaðamannafundar í morgun þar sem flokkurinn kynnti breytingatillögur sínar við fjárlagafrumvarpið. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að flokkurinn væri að reyna að laga vond fjárlög og verja þá hópa sem standi veikast. Önnur umræða um frumvarpið hófst í morgun á Alþingi.
Bjarni segir, að í fjárlagafrumvarpi næsta árs séu útgjöld til flestra málaflokka að aukast töluvert. Samtals um 33,9 milljarða frá 2018 (fyrir utan launahækkanir og lífeyrisskuldbindingar). Það sé 4,8% hækkun útgjalda og langmest fer til heilbrigðis- og velferðarmála.
„Samt skilum við um 29 milljarða afgangi. Það er ábyrgt og ríkið leggur þannig sitt af mörkum til að halda aftur af verðbólgunni og við getum haldið áfram uppgreiðslu skulda.
En Samfylkingin telur ekki nóg gert og vill bæta við 24 milljörðum í útgjöld í viðbót. Það myndi þýða 8% aukningu útgjaldanna! Um leið segja þau að hagspár séu fullbjartsýnar. Þetta sé allt að fara til verri vegar, þau tala niður gjaldmiðilinn og verðbólguna upp.
Afkomunni á svo að redda með auknum sköttum - nema hvað. Það dugar ekki að tekjurnar eru þegar að vaxa um 46 milljarða, þrátt fyrir lækkun tryggingagjalds og hærri persónuafslátt, því hér er hagvöxtur,“ skrifar Bjarni á Facebook.
Hann bætir við, að þrátt fyrir að hagkerfið sé að kólna vilji Samfylkingin leggja 26 milljarða á í nýjum sköttum og gjöldum, „m.a. með því að endurtaka hinn misheppnaða sykurskatt sem mun hækka matvöru og verðlag án þess að hafa áhrif á neysluvenjur. Þau vilja líka halda í bankaskattinn upp á 7 milljarða en hann veldur hærra vaxtastigi í landinu (og við ætlum þess vegna að afnema hann í skrefum). Með bankaskattinum vilja þau 33 milljarða hærri skatta.
Í heildina myndu þeirra tillögur þýða að skattar og gjöld hækkuðu um 4,7%.
Skilaboð Samfylkingarinnar: „Það þarf miklu meiri útgjöld. Og miklu hærri skatta. Að lokum: útlitið er ekki bjart”,“ skrifar Bjarni.