Taldir eigendur Dekhill Advisors

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir. mbl.is/Brynjar Gauti

Starfsmenn skattrannsóknastjóra telja að Ágúst og Lýður Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör, séu eigendur aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd.

Þetta kemur fram í nýrri bók Þórðar Snæs Júlíussonar; Kaupthinking, bankinn sem átti sig sjálfur.

Dekhill Advisors er annað aflandsfélaganna sem högnuðust um milljarða við einkavæðingu Búnaðarbankans árið 2003. Í fyrirspurnum rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu bankans sögðust Bakkavararbræður ekki kannast við félagið, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands árið 2003, kemur fram, að þeir bræður sögðu sig ekki reka minni til atriða sem tengdust félaginu Dekhill Advisors. Rannsóknarnefndin komst að því að stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekkt við sölu Búnaðarbankans og að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á helmingshlut í Búnaðarbankanum hefði einungis verið til málamynda en Kaupþing fjármagnað kaupin að fullu.

 Ágóðinn sat á aflandseyju

Féð til kaupanna á Búnaðarbankanum kom frá Kaupþingi í gegnum aflandsfélagið Welling & Partners á Bresku Jómfrúaeyjum. Hlutabréfin, sem Hauck & Aufhäuser keypti til málamynda, voru síðar seld nokkrum árum seinna með milljarða króna hagnaði sem varð eftir á bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006 var þessi hagnaður greiddur til tveggja aflandsfélaga. Annað þeirra var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar, sem kenndur er við Samskip, sem hagnaðist um 3,8 milljarða. Hitt félagið var Dekhill Advisors en treglega hefur gengið að staðfesta eignarhald félagsins.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kom fram að Belginn Karim Van den Ende hefði aðstoðað Kaupþingsmenn með stofnun aflandsfélaganna og útvegaði hann m.a. félagið Welling & Partners. Segir síðan í skýrslunni: „18. janúar 2006, millifærði Hauck & Aufhäuser samkvæmt beiðni Welling & Partners 46,5 milljónir Bandaríkjadala [2,9 milljarðar á þávirði] inn á reikning aflandsfélags með heitinu Dekhill Advisors Ltd. Sú símgreiða var send í gegnum tilgreindan bankareikning í útibúi svissneska bankans Julius Bär & Co í Zürich til Dekhill sem endanlegs viðtakanda hjá útibúi sama banka í Genf.“

Dekkhill Advisors var þá skráð á Tortóla en rannsóknarnefnd Alþingis tókst ekki að afla upplýsinga um raunverulega eigendur þessa félags eða afdrif þessara fjármuna eftir greiðsluna. Í bók sinni rifjar Þórður Snær upp tilvitnun í Bryndísi Kristjánsdóttur skattarannsóknarstjóra um að embættið telji sig hafa trúverðugar vísbendingar um hvaða aðili/aðilar séu á bak við Dekhill en opinberar síðan hvaða aðilar embættið telur það vera.

„Hér er hægt að opinbera það í fyrsta sinn að þeir sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra telja að séu endanlegir eigendur Dekhill Advisors eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir,“ skrifar Þórður.

 Dekhill enn virkt árið 2016

RÚV greindi frá því í fyrra að félagið virtist enn virkt löngu eftir hrun. „Fyrir liggur að einhver var enn að notast við Dekhill Advisors mörgum árum eftir hrun. Í desember 2009 gerði félagið handveðssamning við svissneska bankann Julius Bäer vegna fjármálagjörnings sem það var að taka þátt í. Gögn sýna síðan að Dekhill Advisors var enn til og virkt í lok september 2016,“ skrifar Þórður.

Árið 2018 fékk embætti skattrannsóknarstjóra þau svör frá svissneskum yfirvöldum að frá þeim væri engar upplýsingar að hafa um það hver væri eigandi Dekhill Advisors. Ástæðan væri sú að eigendur félagsins lögðu fram vottorð þess efnis að þeir væru ekki skattskyldir á Íslandi og þar af leiðandi töldu yfirvöld í Sviss sig ekki geta veitt embættinu upplýsingar. „Sá aðili sem veitti staðfestinguna, sem það vottorð er byggt á er ríkisskattstjórinn á Íslandi,“ segir í bókinni.

Lengi leitað að eigendum

Endalausar getgátur hafa verið uppi um hver eða hverjir væru raunverulegir eigendur Dekhill Advisors. Ólafur Ólafsson sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndarinnar að hann hefði ekki hugmynd um hver ætti félagið. „Ég væri ánægður ef ég gæti sagt þér það,“ sagði Ólafur og bætti við að það ætti að spyrja stjórnendur Kaupþings og Hauck Aufhäuser, við hvern þeir gerðu samning.

Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson birti pistill á vefsíðu sinni nú í haust þar sem hann sagðist telja sig vita hverjir eigendur þess væru. „Því er vandlega haldið leyndu fyrir skattrannsóknarstjóra hverjir eiga Dekhill Advisors, en ýmsir sem þekkja þokkalega til hafa hvíslað því að mér að þar að baki séu stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings,“ skrifaði Björgólfur.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sagði við mbl.is í fyrra að hann taldi sig geta fullyrt að hann hefði ekki heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited, fyrr en í bréfi rannsóknarnefndar Alþingis sem hann fékk í mars 2017. Hann sagði það sama við rannsóknarnefnd Alþingis en Hreiðar var aðstoðarforstjóri Kaupþings á þeim tíma sem kaupin fóru fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert