„Þetta tókst alveg frábærlega og eins og fyrir var lagt,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfjarðarhöfn. „Við erum mjög ánægðir með þetta samstarf. Þetta hefur gengið eins og í sögu.“
Búið er að setja flutningaskipið Fjordvik, sem strandaði í Helguvík, í flotkví í höfninni. Framkvæmdin var stór í sniðum. Þrír dráttarbátar stýrðu skipinu inn, eða Magni frá Faxaflóahöfnum og bátarnir Hamar og Þróttur frá Hafnarfjarðarhöfn.
Að sögn Lúðvíks var skipið mjög stöðugt er því var stýrt inn en um mikið nákvæmnisverk var að ræða því hvorki vél né stýribúnaður er í skipinu. „Við höfðum þennan glugga núna í morgun upp á veður að gera því það spáir slæmu. Það var allt miðað við að það væri hægt að klára þetta fyrir hádegi.“
Skipabjörgunarsérfræðingar frá Hollandi, sem eru að ljúka sínu starfi hér á landi, voru á staðnum ásamt starfsmönnum Köfunarþjónustunnar sem hafa unnið með þeim. Starfsmenn Olíudreifingar voru einnig á staðnum en komið hafði verið upp tvöfaldri girðingu í kringum flotkvína til að koma í veg fyrir olíusmit.
Töluverð olía er enn í vélarrúmi Fjordvik og verður henni dælt þaðan út, að sögn Lúðvíks. Þegar líða tekur á daginn sést betur hversu miklar skemmdir urðu á skipinu.