„Tókst alveg frábærlega“

Fjordvik á leið í flotkví.
Fjordvik á leið í flotkví. mbl.is/Eggert

„Þetta tókst alveg frábærlega og eins og fyrir var lagt,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfjarðarhöfn. „Við erum mjög ánægðir með þetta samstarf. Þetta hefur gengið eins og í sögu.“   

Búið er að setja flutningaskipið Fjordvik, sem strandaði í Helguvík, í flotkví í höfninni. Framkvæmdin var stór í sniðum. Þrír dráttarbátar stýrðu skipinu inn, eða Magni frá Faxaflóahöfnum og bátarnir Hamar og Þróttur frá Hafnarfjarðarhöfn.

mbl.is/Eggert

Að sögn Lúðvíks var skipið mjög stöðugt er því var stýrt inn en um mikið nákvæmnisverk var að ræða því hvorki vél né stýribúnaður er í skipinu. „Við höfðum þennan glugga núna í morgun upp á veður að gera því það spáir slæmu. Það var allt miðað við að það væri hægt að klára þetta fyrir hádegi.“

mbl.is/Eggert

Skipabjörgunarsérfræðingar frá Hollandi, sem eru að ljúka sínu starfi hér á landi, voru á staðnum ásamt starfsmönnum Köfunarþjónustunnar sem hafa unnið með þeim. Starfsmenn Olíudreifingar voru einnig á staðnum en komið hafði verið upp tvöfaldri girðingu í kringum flotkvína til að koma í veg fyrir olíusmit.

Töluverð olía er enn í vélarrúmi Fjordvik og verður henni dælt þaðan út, að sögn Lúðvíks. Þegar líða tekur á daginn sést betur hversu miklar skemmdir urðu á skipinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert