Heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2017 voru 55,7 milljarðar króna en það jafngildir 2,13% af vergri landsframleiðslu.
Árið 2016 voru útgjöldin 53 milljarðar króna og jafngildir það 2,12% af vergri landsframleiðslu. Árið 2015 voru útgjöldin 50,5 milljarðar króna og jafngildir það 2,2% af vergri landsframleiðslu. Hlutfallsleg útgjöld til rannsókna og þróunar standa þar með nokkurn veginn í stað á milli áranna 2016 og 2017. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.
Gagnasöfnun Hagstofunnar nær yfir fyrirtæki, sjálfseignarstofnanir, háskólastofnanir og aðrar opinberar stofnanir. Skiptast heildarútgjöldin þannig að útgjöld fyrirtækja og sjálfseignarstofnana eru 36 milljarðar, útgjöld háskólastofnana 17,3 milljarðar og heildarútgjöld annarra opinberra stofnana 2,3 milljarðar.