Aðskilnaði akstursstefna jafnvel flýtt

Hópurinn lagði sérstaka áherslu á að ná að aðskilja akstursstefnurnar.
Hópurinn lagði sérstaka áherslu á að ná að aðskilja akstursstefnurnar. mbl.is/​Hari

Ráðherra samgöngumála útilokar ekki að aðskilnaði akstursstefna á Reykjanesbraut við Hafnarfjörð verði flýtt, en hann fundaði með forsvarsfólki Stopp-hópsins svokallaða í fyrradag.

Hópurinn hefur lengi krafist aðgerða vegna fjölda alvarlegra slysa og banaslysa á veginum og í síðasta mánuði áformaði hluti hópsins að stöðva umferð um brautina í tilraun til þess að ná eyrum stjórnvalda. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, brást við kallinu og boðaði hópinn á fund sinn.

„Hópurinn lagði sérstaka áherslu á að ná að aðskilja akstursstefnurnar. Ég hef verið sammála þeirri áherslu og í samgönguáætlun er það hluti af fyrsta áfanganum. Þau lögðu áherslu á að farið yrði í það strax á næsta ári og það er eitthvað sem við munum skoða,“ segir Sigurður Ingi, en samkvæmt núverandi áætlun eiga þær aðgerðir að hefjast 2020.

Hann bendir á að á Grindavíkurvegi hafi orðið nokkur alvarleg slys og banaslys á skömmum tíma og að þar hafi verið gripið í taumana. „Ég held það sé mikilvægt að styðjast við langtímaáætlanir en geta líka brugðist við þegar aðstæður breytast vegna umferðarþunga.“

Guðbergur Reynisson er einn talsmanna Stopp-hópsins sem talað hefur fyrir mótmælaaðgerðum. Mbl.is heyrði í Guðbergi eftir fundinn, sem kvað fundinn ágætan og sagði að mótmælaaðgerðir yrðu settar á bið. „Við ætlum að gefa honum olnbogarými til þess að vinna að þessu.“

Nú bíði hópurinn eftir að heyra frá samgöngunefnd Alþingis og Hafnarfjarðarbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert