Hæstiréttur hefur fallist á málskotsbeiðni Ástu Kristínar Andrésdóttur hjúkrunarfræðings í máli hennar gegn íslenska ríkinu. Ásta Kristín var sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi og krafðist þess að ríkinu yrði gert að greiða henni fjórar milljónir í skaðabætur vegna málsins.
Fram kemur í beiðni Ástu að málið hafi verulegt almennt gildi, meðal annars sökum þess að annmarkar hafi verið á rannsókn sakamálsins. Auk þess hafi Landsréttur nálgast skaðabótamálið með röngum hætti og meðferð málsins því ábótavant að því leyti.
Landsréttur staðfesti í lok september dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í skaðabótamáli Ástu Kristínar gegn ríkinu þar sem ríkið var sýknað.
Skaðabótakrafan var byggð á því að starfsmenn ríkisins, einkum lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins, hafi gert mistök við upphaf málsins sem hafi leitt til þess að Ásta Kristín tók á sig ábyrgð á andláti sjúklingsins að ósekju. Ekki var hins vegar fallist á að bótaskylda hefði skapast vegna framgöngu lögreglunnar.
Fram kom í dómi Landsréttar að þrátt fyrir forsendur þær sem fram komi í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í sakamálinu um að rannsókn þess hafi verið ábótavant yrði ekki talið í ljósi gagna málsins að lögreglan hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta hegðun eða að ákæruvaldið hafi ekki farið að lögum.
Fram kemur í niðurstöðu Hæstaréttar vegna málskotsbeiðni Ástu Kristínar að í málinu reyni á álitaefni um skilyrði réttar til skaðabóta og hugsanlega meðábyrgð Ástu Kristínar. Það geti haft almennt gildi og umsóknin því tekin til greina.