Íslensk flugfélög geta nú samið um Síberíuflugleiðina

Íslensk flugfélög sem vilja fá leyfi til yfirflugs munu núna …
Íslensk flugfélög sem vilja fá leyfi til yfirflugs munu núna þurfa að semja um yfirflugsgjöld við viðkomandi aðila til að geta hafið flug til Asíu yfir Rússland. AFP

Rússnesk stjórnvöld gera ekki lengur kröfu um að íslenskir flugrekendur sem vilja nota Síberíuflugleiðina haldi jafnframt uppi beinu áætlunarflugi til áfangastaðar í Rússlandi. Hingað til hafa skilmálar Rússa verið mjög strangir og þannig komið í veg fyrir að íslensk flugfélög gætu samið um notkun flugleiðarinnar. 

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að 8. nóvember hafi farið fram reglubundið samráð íslenskra og rússneskra stjórnvalda í Moskvu um tvíhliða viðskiptamál ríkjanna.

„Á fundinum kom fram að rússnesk stjórnvöld geri ekki lengur kröfu um að íslenskir flugrekendur sem vilja nota Síberíuflugleiðina haldi jafnframt uppi beinu áætlunarflugi til áfangastaðar í Rússlandi. Er um að ræða árangur af viðræðum íslenskra og rússneskra stjórnvalda um skilmála rússneskra yfirvalda fyrir yfirflug íslenskra flugvéla yfir Síberíu sem staðið hafa um nokkurt skeið. 

Hingað til hafa skilmálar rússneskra stjórnvalda verið mjög strangir og þannig komið í veg fyrir að íslensk flugfélög gætu samið um notkun Síberíuflugleiðarinnar. Með þessari ákvörðun hefur að vissu marki verið greitt fyrir viðræðum íslenskra flugfélaga við viðkomandi aðila um notkun Síberíuflugleiðarinnar. Íslensk flugfélög sem vilja fá leyfi til yfirflugs munu núna þurfa að semja um yfirflugsgjöld við viðkomandi aðila til að geta hafið flug til Asíu yfir Rússland,“ segir utanríkisráðuneytið. 

Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni.
Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ennfremur segir, að á fundinum hafi áfram verið lögð áhersla á að rússnesk stjórnvöld komi til móts við íslenska matvælaútflytjendur og leiti lausna á innflutningsbanni þeirra vegna þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum vestrænna ríkja í kjölfar átaka í Úkraínu og innlimunar á Krímskaga árið 2014.

„Gagnaðgerðir rússneskra stjórnvalda fela í sér mun víðtækara innflutningsbann á matvæli en sértækar og afmarkaðar þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja gefa tilefni til. Þá var rætt um aukin viðskipti á öðrum sviðum og því fagnað sérstaklega að íslensk fyrirtæki séu að hasla sér völl í hinum dreifðu byggðum Rússlands, sérstaklega í skipasmíðum og hátækni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert