Metár í byggingu nýrra íbúða í borginni

Áætlað er að alls verði byrjað á smíði 1.400-1.500 nýrra …
Áætlað er að alls verði byrjað á smíði 1.400-1.500 nýrra íbúða á þessu ári, sem er umtalsverð aukning frá árunum 2015-2017 þegar var að jafnaði byrjað á rúmlega 920 íbúðum ár hvert. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gefin hafa verið út byggingarleyfi fyrir 1.344 íbúðir í borginni á fyrstu tíu mánuðum ársins og er árið orðið metár í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík. Þetta er meðal þess sem fram kom á opnu málþingi borgarstjóra um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík sem stendur yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Fara þarf allt aftur til ársins 1973 til að finna svipaðan fjölda útgefinna byggingarleyfa en þá var fjöldi útgefinna byggingarleyfa íbúða í borginni 1.133, samkvæmt yfirliti embættis byggingarfulltrúa sem nær aftur til 1972.

Þá er áætlað er að alls verði byrjað á smíði 1.400-1.500 nýrra íbúða á þessu ári, sem er umtalsverð aukning frá árunum 2015-2017 þegar var að jafnaði byrjað á rúmlega 920 íbúðum ár hvert.

„Eitt af því sem einkennir uppbygginguna er að hún er ekki fyrir einhvern einn hóp. Stærstur hluti uppbyggingarinnar eru almennar söluíbúðir en svo eru fjölmörg verkefni með verkalýðshreyfingunni, stúdentum, félögum sem eru að byggja upp fyrir eldri borgara og öðrum sem eru að koma upp og tryggja þessa nauðsynlegu blöndu sem  við viljum sjá,“ sagði Dagur á fundinum í morgun.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Arnþór

Tæplega 5.000 íbúðir á framkvæmdastigi

Framkvæmdir á nýjum íbúðum eru hafnar á 32 byggingarsvæðum í Reykjavík þar sem má byggja alls 4.828 íbúðir. Samkvæmt uppfærðri Húsnæðisáætlun Reykjavíkur fjölgar íbúðum á framkvæmdastigi umtalsvert á milli ára og eru 4.809 nú, samanborið við 3.100 á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 3.127 almennar íbúðir og 1.701 íbúð á vegum húsnæðisfélaga.  

Á sama tíma fækkar verkefnum í flokknum samþykkt deiliskipulag og eru nú 3.335, samanborið við 4.302 í fyrrahaust. Aftur á móti fjölgar íbúðum mikið í formlegu skipulagsferli hjá borginni milli ára, sem ætti að gefa fyrirheit um enn hraðari uppbyggingu á næstu árum. Þær eru nú 7.575 en voru 3.045 haustið 2017. Á móti fækkar verkefnum milli ára þegar kemur að íbúðum í undirbúningsferli, úr 8.805 íbúðum í fyrra í 5.065 íbúðir nú.

Í nýútgefnum bæklingi borgarinnar um uppbyggingu íbúða í borginni kemur fram að senn sjái fyrir endann á mörgum byggingarverkefnum í miðborginni, eins og í Kvosinni og við gömlu höfnina, en á sama tíma eru ný byggingarsvæði að koma inn í myndina með auknum umsvifum, þar af nokkur mjög stór eins og Hlíðarendi, Kirkjusandur og Vogabyggð.

4.809 íbúðir eru á framkvæmdastigi í Reykjavík.
4.809 íbúðir eru á framkvæmdastigi í Reykjavík. Kort/Reykjavíkurborg

Hér má fylgjast með fundinum sem stendur yfir til klukkan 11: 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert