Segir tillögur Miðflokksins fjármagnaðar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú til meðferðar á Alþingi. Miðflokkurinn hefur …
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú til meðferðar á Alþingi. Miðflokkurinn hefur lagt til breytingar við frumvarpið. mbl.is/​Hari

„Það er ekki hægt að leggja alla pósta saman og segja að verið sé að auka útgjöld, það er ekki rétt aðferð,“ segir Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um breytingartillögur flokksins við fjárlagafrumvarpið.

Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is að í tillögum flokksins er gert ráð fyrir að útgjöld hækki um 2,4 milljarða króna og að tekjur verði 4,8 milljörðum minni.

Í tilkynningu frá Miðflokknum sagði að útgjaldavöxtur ríkissjóðs væri of mikill og að bætt væri „verulega í ríkisbáknið“ í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

„Það er verið að bæta í ríkisbáknið. Það er það sem við erum að gagnrýna í sambandi við ríkisútgjöld. Það er verið að hækka þarna marga liði og sem dæmi er verið að skipta velferðarráðuneytinu í tvö ráðuneyti og það kostar um 200 milljónir, það er mikil hækkun til utanríkisráðuneytisins, það er hækkun til umhverfisráðuneytisins. Stjórnsýsla umhverfisráðuneytisins fær einhverja 800 milljón króna hækkun,“ segir Birgir.

„Fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt þörf á uppstokkun í ríkisbákninu og taka á því máli og við getum ekki sé að þeir [Sjálfstæðisflokkurinn] séu að gera það,“ bætir hann við.

Ómarkvisst kolefnisgjald

Birgir segir Kolefnisgjaldið leggjast sérstaklega á landsbyggðina og að það dragi úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

„Þetta er ekki nægilega vel ígrunduð skatthheimta. Þess vegna leggjum við til að fyrirhuguð 10% hækkun komi ekki til framkvæmda og svo verði lækkun upp á 50% þar til liggi fyrir heildstæð stefna um hvernig Ísland ætlar nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar án þess að það bitni á landsbyggðinni sérstaklega, dragi úr samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þrótt úr hagkerfinu,“ útskýrir þingmaðurinn.

Samkvæmt tillögum Miðflokksins munu tekjur af kolefnisgjaldi verða 2,3 milljörðum minni en áætlað er í fjárlagafrumvarpinu. Birgir segir þennan tekjumissi vera fjármagnaðan í tillögunum með auknum arðgreiðslum úr ríkisbönkunum, sem talinn er að verði 2,6 milljarðar.

Meiri skatttekjur

Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson Ljósmynd/Aðsend

Lagt er til auka framlög til öryrkja um 1,1 milljarð til þess að ná 4 milljarða aukningu í málaflokkinn á næsta ári að sögn Birgis. Miðflokkurinn vilji fresta framkvæmædum við hús íslra fræða og þannig náist 800 milljónir. „Þá erum við með 300 milljónir í afgang af arðgreiðslum úr bönkunum til þess að fjármagna þennan 1,1 milljarð sem fer í að bæta öryrkjum þetta. Þannig að það er fjármagnað.“

„Svo er það þetta með að atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur og það kostar um 1,1 milljarð króna og við gerum ráð fyrir því að það komi þarna á móti töluverðar skatttekjur. Þannig að þetta er ekki alveg eins dýrt úrræði og gert er ráð fyrir,“ staðhæfir hann.

Erfitt að áætla

„Þetta með tryggingagjaldið felur í sér að lækkun skilar sig til baka í ríkissjóð með því að það verður kannski minna um uppsagnir og jafnvel að fyrirtækin geti ráðið til sín fólk. Þannig að það er verið að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna,“ útskýrir Birgir og bætir við að „þarna koma síðan skatttekjur á móti.“

Spurður hvort ekki mætti telja sem svo að afkoma ríkissjóðs sé minni samkvæmt tillögum Miðflokksins þar sem ekki kemur fram í tillögunum áætlun um auknar skatttekjur, svarar hann: „Þú getur kannski sagt það en þarna eru að koma skatttekjur á móti sem er erfitt að áætla á þessum tímapunkti. Sérstaklega með tryggingagjaldið, eins og með eldriborgara þegar þeir fara inn á vinnumarkaðinn þá koma náttúrulega skatttekjur á móti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka