„Þessar fyrstu niðurstöður koma okkur verulega á óvart og fjöldi þeirra sem segjast hafa orðið fyrir þessu ofbeldi er meiri hér en í erlendum rannsóknum,“ segir Arna Hauksdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið, og vísar í máli sínu til fyrstu niðurstaðna rannsóknarverkefnisins Áfallasaga kvenna.
Þar kemur fram að fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun á lífsleiðinni og sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi. Niðurstöðurnar leiða einnig í ljós að ríflega 40% þátttakenda eiga sögu um framhjáhald eða höfnun af hendi maka og svipað hlutfall hefur orðið fyrir andlegu ofbeldi eða einelti í barnæsku eða á fullorðinsárum.
Þá á einn af hverjum sex þátttakendum í rannsókninni að baki lífshættuleg veikindi eða meiðsl og um það bil þriðjungur erfiða fæðingarreynslu. Auk Örnu er það Unnur Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, sem vinnur að rannsókninni. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu segir Arna rannsóknina umfangsmikla og eru þátttakendur hennar spurðir fjölbreyttra spurninga.