Sonur Hörpu Hildiberg Böðvarsdóttur hefur verið sprautufíkill í mörg ár en erfiðlega hefur gengið að komast í meðferðarúrræði. Vakti Harpa athygli á þessu úrræðaleysi sem foreldrar fíkla glíma við í umræðuhópnum Góða systir.
Hún neyddist til að skilja fársjúkan son sinn eftir í sjoppu niðri í bæ vegna þess hann komst ekki að neins staðar. „Ég grét og grét og grét en ég get ekki tekið hann heim í svona ástandi,“ skrifar Harpa.
Hún hleypti syni sínum inn á heimilið í september á þessu ári þegar hann sat fyrir utan hjá þeim í annarlegu ástandi, illa til reika og grátandi. „Ég gaf honum að borða og skipaði honum í sturtu en svo á meðan ég var að elda kvöldmatinn sprautaði hann sig inni á klósetti og var næstum dáinn á mínu heimili fyrir framan mig og bræður sína.“
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Harpa nauðsynlegt að ráðist verði í aðgerðir vegna biðlista fyrir meðferðarúrræði hérlendis en biðlistar eru langir á langflestum stöðum. „Maður veit aldrei þegar maður sér hann hvort það sé í síðasta skipti,“ segir Harpa en undirskriftasöfnun stendur yfir til að þrýsta á frekari fjármögnun til að útrýma biðlistum.
Sonur Hörpu hefur verið í neyslu síðan um aldamótin og sprautufíkill síðan 2010. „Það er bara skelfilegt þegar þú ert kominn út í það. Það er svo erfitt að komast úr því. Þetta eru svo ofboðslega mikil veikindi.“ Harpa segir eilífðaráhyggjurnar af syni sínum og kvíðann hafa gríðarleg áhrif á sig og fjölskylduna og hún viti aldrei hvort það skiptið sem hún sér son sinn sé það síðasta. „Hann er náttúrlega að horfa á þá sem voru með honum í meðferð og félaga sína vera að falla núna og bara það að vita af honum á götunni gerði mig alveg skelfilega hrædda. Síðast þegar hann var hérna heima sprautaði hann sig einmitt og ég þurfti að hringja á sjúkrabíl. Maður veit aldrei þegar maður sér hann hvort það sé í síðasta skipti. Það er sá kvíði. Yfirleitt þegar ég sé ókunnug símanúmer þá get ég ekki svarað þeim en ég ákvað að svara núna. Maður verður bara að vera sterkur.“
Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að fleiri hefðu látist af völdum fíknar í ár en allt síðasta ár. Alls hafa 27 manns yngri en 39 ára úr gagnagrunni SÁÁ látist á fyrstu 10 mánuðum ársins. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans, sagði að um faraldur fíknisjúkdóma væri að ræða.