Vélar WOW og Southwest rákust saman

Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Bandarísk flugmálayfirvöld hafa hafið rannsókn á atviki sem átti sér stað á alþjóðaflugvellinum í St. Louis í gær þegar flugvélar WOW air og Southwest Airlines rákust saman.

Samkvæmt upplýsingum frá WOW air var vél félagsins lögð í stæði á flughlaði St. Louis-flugvallarins. Flugvélin var kyrrstæð þegar atvikið átti sér stað, en tilbúin til brottfarar. Flugvél Southwest var að leggja í stæðið við hliðina á vél WOW air þegar vængendi hennar rakst í vængenda flugvélar WOW.

Flugvél WOW air skemmdist við áreksturinn og var ekki nothæf. Félagið sendi aðra vél til St. Louis klukkan 6:45 í morgun og er áætluð brottför frá St. Louis klukkan 9:25 á staðartíma, eða eftir rúmar tvær klukkustundir.

„Það voru allir komnir um borð í vélina þegar við heyrðum lítinn hvell,“ sagði Nathaniel Jensen, farþegi í flugvél WOW air, í samtali við Fox en vængir vélanna rákust saman.  

Engin slys urðu á fólki. 

Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum, að atvikið hafi orðið um kl. 16:15 að staðartíma.

Vél Soutwest, sem var nýkomin frá Kansas City, var að aka í átt að hliðunum þegar hún rakst í vél Wow air sem var á leið til Íslands. 

„Við erum að nálgast hliðið þegar við stöðvumst snögglega, og maðurinn sem sat við gluggann sagði að við hefðum rekist á væng vélar frá WOW,“ segir Diana Herberts, sem var um borð í vél Soutwest. Hún bætti við að vængirnir hefðu skemmst mikið og ljóst að vélarnar færu ekki neitt.

Farþegar WOW air segja flugfélagið hafa boðið þeim upp á hótelgistingu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert