Vilja lækka skatta og auka útgjöld

Miðflokkurinn hélt nýverið flokkráðsfund á Akureyri.
Miðflokkurinn hélt nýverið flokkráðsfund á Akureyri. mbl.is/Þorgeir

Miðflokkurinn segir of mikinn útgjaldavöxt í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og leggur til að auka útgjöld ríkissjóðs um 2,4 milljarða króna. Þá leggur flokkurinn einnig til í breytingartillögum sínum við frumvarpið að tekjur verði 4,8 milljörðum minni.

Í tilkynningu frá flokknum til fjölmiðla segir meðal annars að samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarflokkana munu „ríkisútgjöld munu aukast um 57 milljarða á árinu 2019, eða um rúmlega einn milljarð á viku.“

Þá telur flokkurinn það óraunhæft fyrir stjórnvöld að treysta á áframhaldandi mikinn hagvöxt og vísað til vaxandi verðbólgu og veikari gengi krónunnar. „Í fjárlagafrumvarpinu er of mikill útgjaldavöxtur og er bætt verulega í ríkisbáknið. Ekki er búið nægilega vel í haginn fyrir það sem fram undan er.“

Aukin útgjöld

Miðflokkurinn leggur til aukningu í ýmsum málaflokkum, en stærstu liðir í þeim efnum er aukning um 1,1 milljarð vegna örorkulífeyris, 1,1 miljarður til þess koma í veg fyrir skerðingu lífeyri aldraðra vegna atvinnutekna og framlenging úrræðis sem miðar af notkun séreignasparnaðar til fasteignakaupa.

Lagt er til að fjárveitingar til fíkniefnaeftirlits verði auknar, ásamt auknum fjármunum vegna átaki gegn kennitöluflakki.

Heildar útgjaldaaukning samkvæmt tillögunum eru um 3,2 milljarðar króna, en lagt er til að framlag til háskóla verði 800 milljónum minni en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þannig mun heildarútgjaldaukningin í tillögunum vera um 2,4 milljarðar króna.

Lækkun skatta

Samkvæmt tillögum Miðflokksins verður tryggingagjald lækkað um 0,5 prósentustig úr 6,85% í 6,35%, sem flokkurinn telur skerða tekjur ríkissjóðs um 4 milljarða.

Einnig vill flokkurinn lækka tekjuskatt einstaklinga um milljarð og að hætt verði við fyrirhugaða hækkun kolefnisgjalds um 10% og að fyrri hækkun verði felld úr gildi, sem gefur 2,3 milljarða minni tekjur en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Hins vegar er lagt til að arðgreiðslur til ríkisins frá fyrirtækjum í eigu þess aukist um 2,6 milljarða. Samtals verða tekjur ríkissjóðs þá 4,8 milljarða minni.

Afkoma ríkissjóðs verður þá 7,2 milljarða verri en frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert