Fjórðungur bráðarýma ekki nýttur sem skyldi

Fjórðungur bráðarýma á Landspítalanum eru ekki nýtt sem skyldi vegna …
Fjórðungur bráðarýma á Landspítalanum eru ekki nýtt sem skyldi vegna „fráflæðisvanda“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárlög næsta árs eru Landspítalanum hagkvæmari en fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar bar með sér, en þó liggur enn fyrir að halli verði á starfsemi spítalans á þessu ári og rekstur næsta árs verði áskorun. Þetta kemur fram í vikulegum pistli Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans.

Páll segir að halli þessa árs helgist annars vegar af skorti á hjúkrunarfræðingum sem leiði til þess að starfsfólk vinni mikla yfirvinnu. Hins vegar fái spítalinn ekki allar þær launabætur sem þurfi til að standa straum af kjarasamningum. „Við eigum í ágætu samtali við velferðarráðuneytið um viðbrögð við hallanum eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Páll í pistlinum.

Þá segir hann mikilvægt að árétta að þrátt fyrir að framlög til byggingu nýs spítala dragist saman samkvæmt frumvarpinu, þá séu á því eðlilegar skýringar. Fyrirsjáanlegar tafir hafi orðið sem skýra lækkun í frumvarpinu, en þær muni ekki hafa áhrif á ætluð verklok heildarverksins árið 2024.

Þá segir Páll að „fráflæðisvandinn“, eða útskriftarvandi aldraðra, sé nú í áður óþekktum hæðum. 130 einstaklingar sem lokið hafa meðferð og hafi færni- og heilsumat og bíði rýmis á hjúkrunarheimili, séu enn á spítalanum. Hefur þetta þau áhrif á fjórðung alls bráðarýmis á spítalanum. „Þetta getur haft vond áhrif á þjónustu við bráðveika, unga sem aldna, enda náum við ekki að nýta allt að fjórðungi bráðarýma eins og ætlað er,“ segir Páll.

Bendir hann þó á að ríkisstjórnin hafi kynnt opnun nýrra hjúkrunarrýma á næsta ári og að mikilvægt sé að sú uppbygging haldi áfram, samhliða þróun fjölbreyttrar þjónustu við fólk í heimahúsum og þar er mikið grasrótarstarf þegar unnið. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert