Álka sem fannst við Bjargtanga á Látrabjargi í júní 2016 reyndist vera elsta álka sem fundist hefur hér við land eða að minnsta kosti 31 árs. Hún var hin sprækasta þegar henni var sleppt og gæti því verið orðin 33 ára.
Fyrra Íslandsmetið var 28 ár, en heimsmet í álkualdri er 42 ár. Í samantekt á heimasíðu Náttúrufræðistofu Norðausturlands fjallar Yann Kolbeinsson fuglafræðingur um Íslandsmetið, en 22. júní 2016 voru starfsmenn Náttúrustofunnar staddir á Látrabjargi við endurheimtur dægurrita af svartfuglum. Við leit að merktum álkum náðist fugl sem reyndist bera gamalt stálmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hluti merkisins var orðinn mjög eyddur og ólæsilegur en þó tókst að finna út úr númeri merkisins sem var 457064.
Endurheimtan var tilkynnt til Náttúrufræðistofnunar og fyrr á þessu ári bárust upplýsingar um merkingu fuglsins. Reyndist álkan hafa verið merkt á sama stað 4. júní 1987 af Arnþóri Garðarssyni, þá sem fullorðinn einstaklingur í varpi eða a.m.k. tveggja ára gömul. Fuglinn hefur því verið að minnsta kosti 31 árs gamall við endurheimtu.