Farþegar bíða þess að komast úr vélum

Stigabílar og landgangar hafa verið teknir úr notkun af öryggisástæðum …
Stigabílar og landgangar hafa verið teknir úr notkun af öryggisástæðum á Keflavíkurflugvelli vegna vindhraða. mbl.is/Eggert

Tafir hafa orðið á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli nú í morgun vegna veðurs. Farþegar í þremur flugvélum frá British Airwaves, EasyJet og Delta sem lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun bíða þess enn að komast úr vélunum. Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. 

Allt inn­an­lands­flug ligg­ur þá niðri vegna slæms veðurs og ókyrrðar í lofti. Staðan verður end­ur­met­in klukk­an 14.30, þegar nýj­ar upp­lýs­ing­ar verða gefn­ar.

„Búið er að taka landgöngubrýr og stigabíla úr notkun vegna vindhraða. Þjónustuaðilarnir, IGS og Airport associates, eru með stigabílana. Hvað landgöngubrýrnar varðar þá, þegar vindhraðinn fer yfir 50 hnúta, þá eru þær teknar úr notkun af öryggisástæðum. Allir ranarnir eru úr notkun akkúrat núna og beðið er eftir því að vind lægi,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia um ástandið á Keflavíkurflugvelli.

Hann segir þó að Icelandair sé farið að nota sína bíla til þess að hleypa fólki úr vélum sem lent var á níunda tímanum í morgun. Eins sé búið að fresta einhverjum flugferðum, en fyrir frekari upplýsingar er fólki bent á að fylgjast með á vef Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert