Kötlugarður, gamli varnargarðurinn austan við Vík í Mýrdal, myndi rofna í Kötluhlaupi svipuðu og varð í gosinu árið 1918, og jökulhlaupið myndi ná til Víkur. Athuganir benda til þess að nýr varnargarður sem byggður yrði í 7 metra hæð yfir sjávarmáli við Víkurklett myndi stöðva jökulflóðið og einnig minna flóð sem hugsanlega kæmi í kjölfarið og því verja byggðina í þorpinu.
Niðurstöður vinnu með hermilíkan sem Verkfræðistofan Vatnaskil gerði vegna hönnunar nýrrar brúar á Múlakvísl og varnargarðs í kjölfar flóðs sem tók af gömlu brúna bentu til að hamfaraflóð myndi fara yfir Kötlugarð og ná til þéttbýlisins í Vík. Kötlugarður var gerður um miðja síðustu öld, eftir að vegurinn var færður niður á sandinn. Hann er austan við bæinn Höfðabrekku, við flugvöllinn sem þar er, að því er fram kemur í fréttaskýringu um viðbúnað við Kötluflóði í Morgunblaðinu í dag.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi fékk verkfræðistofuna til þess að herma sérstaklega útbreiðslu og dreifingu hamfaraflóðs úr Kötlujökli með áherslu á þéttbýlið í Vík. Markmiðið er að fá varfærið mat á flóðhæð við Víkurklett, komi til Kötluhlaups af sömu stærð og árið 1918, og leggja mat á hversu háan varnargarð þurfi að gera til að hindra útbreiðslu flóðsins til Víkur. Vatnaskil hafa skilað þessari skýrslu.