Raskanir hafa keðjuverkandi áhrif

Farþegum hleypt frá borði úr vél WOW air á Keflavíkurflugvelli.
Farþegum hleypt frá borði úr vél WOW air á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Hilmar Bragi

Ellefu af tólf landgöngubrúm á Keflavíkurflugvelli voru teknar í notkun á nýjan leik klukkan eitt í dag þegar lægði nægilega mikið samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa ISAVIA. 

„Það er þessi eina landgöngubrú sem hefur lægri þröskuld á vindhraða en hinar. Það er búið að taka aðrar landgöngubrýr í notkun og það þýðir að það er búið að hleypa fólki frá borði í öllum vélum og byrjað að hleypa fólki í þær vélar sem eru að fara í loftið.“

Flugvélar bíða á Keflavíkurflugvelli eftir að vinda lægi.
Flugvélar bíða á Keflavíkurflugvelli eftir að vinda lægi. Ljósmynd/Hilmar Bragi

Tíu flugferðum aflýst

Farþegar í þrem­ur flug­vél­um frá Brit­ish Airwaves, Ea­syJet og Delta sem lentu á Kefla­vík­ur­flug­velli í morg­un höfðu þá beðið í nokkrar klukkustundir eftir að kom­ast úr vél­un­um vegna vonskuveðurs. 

Tíu flugferðum hefur verið aflýst það sem af er degi og Guðjón segir að raskanirnar muni hafa keðjuverkandi áhrif. „Ég held að þær séu nú þegar búnar að hafa einhver keðjuverkandi áhrif en það er bara verið að vinda ofan af því eins hratt og hægt er. Okkar starfsfólk er öflugt og á fullu við að leysa þetta mál.“

Flugvélar fyrir þær flugferðir sem ekki hefur verið aflýst ættu að fara í loftið fljótlega, samkvæmt Guðjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert