Stödd í „grafalvarlegum stéttaátökum“

Sólveig Anna fór yfir kröfur Eflingar í komandi kjaraviðræðum á …
Sólveig Anna fór yfir kröfur Eflingar í komandi kjaraviðræðum á fundi Vinstri grænna og verkalýðshreyfingarinnar. mbl.is/​Hari

„Við ætlum vissulega að semja um krónur og aura, en við ætlum líka að semja um lífsskilyrði í þeirra víðasta skilningi. Og fólk sem lætur eins og það sé ekki hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að berjast á öllum vígstöðvum, að það sé einhvern veginn ekki kurteist eða fallegt að segja að stjórnmálin eigi að svara kalli vinnuaflsins, er fólk sem opinberar fáfræði sína um eðli baráttunnar,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar á fundi Vinstri grænna og verkalýðshreyfingarinnar um kjaramál nú í hádeginu. 

„Grafalvarleg stéttaátök“

Fundurinn var haldinn til þess að varpa ljósi á stöðu mála vegna yfirvofandi kjaraviðræðna. Frummælendur fundarins, auk Sólveigar, voru þær Drífa Snædal, forseti ASÍ, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG. 

Sólveig sagði að þjóðin stæði í grafalvarlegum stéttaátökum. „Ég fullyrði að láglaunafólk er einfaldlega búið að sjá í gegn um áróðurinn um brauðmolana og fólk er búið að sjá í gegnum hina ógeðslegu væntingastjórnun á lágtekjuhópana sem hér hefur verið stunduð og hefur nú umbreyst í það að íslenska hótanamafían hefur frítt spil til að hræða og þvaðra viðstöðulaust.“

Fái greitt fyrir tilfinningavinnu

Þá fór Sólveig yfir kröfur Eflingar í komandi kjaraviðræðum, en þær eru m.a. að lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, fjármagnstekjuskattur hækki auk þess sem þjóðarátak verði gert í húsnæðismálum. Jafnframt verður sett fram krafa um greiðslu fyrir svokallaða tilfinningavinnu. 

„Af því að það eru manneskjur, yfirleitt konur, sem starfa í umönnun og í þjónustustörfum. [Við viljum að] okkur verði umbunað fyrir það að veita ekki aðeins aðgang að vinnuaflinu okkar, höndunum okkar og líkamanum okkar, heldur líka að við þurfum að vera til sölu í tilfinningalegum skilningi. Við þurfum ávallt að vera þjónustulundaðar, brosmildar, góðar, elskulegar, kærleiksríkar, alveg sama hvernig okkur líður inní okkur. Þetta er gríðarlega mikilvæg sósíalísk og feminísk krafa og ég fagna því innilega að hún skuli hafa verið sett fram í fullri alvöru,“ sagði Sólveig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert