Lögreglan vill að þeir ökumenn sem stöðvaðir eru og mælast með áfengismagn í blóði yfir 0,2 prómill verði sjálfkrafa sviptir ökurétti. Þetta kemur fram í athugasemdum umferðardeildar LRH við frumvarp til nýrra umferðarlaga.
Samkvæmt nýju lögunum verða mörk sviptingar færð frá 0,5 prómillum í blóði niður í 0,2 prómill. Hinsvegar segir í frumvarpinu að ökumaður verði ekki sviptur ökurétti fyrir fyrsta brot. Einungis sé sektað fyrir fyrsta brot.
Segir í umsögninni að það sé reynsla lögreglu að allt að helmingur þeirra ökumanna sem hún hefur afskipti af vegna ölvunaraksturs mælist með áfengismagn í blóði undir 0,5 prómillum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.