„Á að tala um sjálfsvíg sem veikindi“

Vigfús Bjarni og Funi í þættinum í morgun.
Vigfús Bjarni og Funi í þættinum í morgun. Ljósmynd/Skjáskot,K100

„Við erum mjög stutt frá þeirri umræðu að fólk talaði um sjálfsvíg sem eitthvert val, eigingjarna athöfn og siðlausa athöfn. Við erum bara stutt komin í þeirri umræðu, en sem betur fer lögð vel af stað,“ sagði Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur í þjóðmálaþættinum Þingvöllum í morgun. þar sem því var m.a. velt upp hvers vegna Ísland hefði haft eina hæstu sjálfsvígstíðni ungra manna undanfarin tíu ár.

Vigfús sagði það mikilvægt að fjölskyldur fengju stuðning og að talað væri um sjálfsvíg sem veikindi. „Við erum að eiga við veikan hug sem rökstyður sig út úr lífinu. Þessi hugur kemst að því að allir séu betur settir af án sín. Það er mjög mikilvægt fyrir þær fjölskyldur sem tengjast sjálfsvígum að fá þá aðstoð og skilja að viðkomandi deyr úr veikindum. Það á að tala um sjálfsvíg sem veikindi.“

2018 „metár“ dauðsfalla meðal fíkla

Vigfús var viðmælandi Bjartar Ólafsdóttur auk Funa Sigurðssonar, forstöðumanns Stuðla, en einnig mættu þingmennirnir Ágúst Ólafur Ágústsson og Willum Þór Þórsson í viðtal til Bjartar. Fíknivandinn og aukin neysla lyfseðilsskyldra lyfja meðal ungs fólks var meðal þess sem bar á góma og þingmennirnir voru spurðir út í þeirra afstöðu til málaflokksins, einkum í ljósi þess að árið 2018 hlyti þann vafasama titil að vera metár dauðsfalla meðal fíkla.  

Funi nefndi að pláss til úrræða væri ekki vandamál í þessum efnum heldur fremur skortur á fjölbreytni í úrræðum til handa þessum hópi ungs fólks. 

Willum er formaður fjárlaganefndar Alþingis og Ágúst annar formaður nefndarinnar.

„Fyrir tveimur áratugum vorum við að berjast við unglingadrykkju og reykingar. Við höfum náð stórkostlegum árangri í því. [...] En þróunin hefur verið óheillavænleg þá í þessa tegund fíknisjúkdóma og í þessum harðari heimi. Þetta er kannski flóknari heimur því hann tengist öðrum og verri hlutum. Hann er lúmskari og erfiðari viðureignar. Auðvitað lögum við þetta ekki eða tökumst á við þetta í einu vetfangi, en við þurfum í gegnum allt velferðarkerfið okkar að búa til úrræði,“ sagði Willum.  

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert