„Engin bygging reist í Víkurgarði“

Frá framkvæmdum á Landsímareitnum.
Frá framkvæmdum á Landsímareitnum. mbl.is/​Hari

Engin byggingaráform eru fyrirhuguð í Víkurgarði og engar grafir verða lagðar undir hótel. Þetta segja forsvarsmenn fyrirtækisins Lindarhvols sem ætlar að byggja hótel á Landssímareitnum.  Fyrr í dag mætti fólk í Víkurgarð, þar sem nú er Fógetagarðurinn „til að mót­mæla því að graf­ir 600 Reyk­vík­inga verði lagðar und­ir hót­el“, eins og seg­ir í frétta­til­kynn­ingu.

Þessari staðhæfingu vísa forsvarsmenn framkvæmdanna á bug og segja að samkvæmt deili- og aðalskipulagi nái fyrirhuguð framkvæmd ekki inn á kirkjugarðinn forna.

„Fyrirhugaðar byggingar á Landssímareitnum, þar sem Landssímahúsið stendur, hafa verið á skipulagsuppdráttum í rúma þrjá áratugi, eða frá árinu 1987. Þessum uppdráttum er hægt að fletta upp á netinu,“ segir í tilkynningu sem Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarhvols, sendi nú í kvöld.

Segir hann forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ítrekað komið þessum upplýsingum til samtakanna og þá hafi Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur bent forsvarsmönnum hópsins á þær upplýsingar.

Það verður engin bygging reist í Víkurgarði. Þetta getur hver sem er staðreynt með því að skoða deiliskipulagsuppdrætti, sem eru aðgengilegir á www.skipulag.is, sem og samþykkta aðaluppdrætti, sem eru aðgengilegir hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert