Hegðunarvandamál nánast úr sögunni

Hákon Sæberg ásamt hluta af nemendum í 4. bekk Árbæjarskóla.
Hákon Sæberg ásamt hluta af nemendum í 4. bekk Árbæjarskóla. mbl.is/Hari

Geturðu platað krakka til að hafa gaman af að læra? Hákon Sæberg velti því fyrir sér í kennaranáminu þar sem hann heillaðist af kennsluaðferðum leiklistar og aðferðinni sérfræðingskápan. Nemendur í 4. bekk Árbæjarskóla hafa lært um hvali í hlutverki sjávarlíffræðinga og um fjöll í hlutverki spæjara.

„Ég útskrifaðist sem grunnskólakennari með áherslu á kennsluaðferðir leiklistar árið 2016. Ég er búinn að vera starfandi sem kennari í Árbæjarskóla í tvö ár, þetta er annað árið mitt hér en þar á undan hafði ég verið í vettvangsnámi hér,“ segir Hákon, sem er einn af þremur kennurum bekkjarins.

„Aðferðin sérfræðingskápan gengur ekki síst út á það að nám nemenda fer fram að miklu leyti í hlutverki innan í einhvers konar ímyndunarheimi. Nemendur og kennarar samþykkja að vinna hluta af skólastarfinu í hlutverki sem einhverjir aðrir en þeir eru sjálfir; í hlutverki sérfræðinga í einhverju tilteknu viðfangsefni. Nemendur og kennarar stofna fyrirtæki. Þetta er einhvers konar hópur fólks sem vinnur saman að sameiginlegu markmiði. Síðan berast fyrirtækinu alls konar verkefni frá utanaðkomandi aðilum sem eru alla jafna kennarar í hlutverki, verkefnin geta borist með bréfum eða tölvupósti en þau berast alltaf frá einhverjum persónum sem eru ekki nemendur eða kennarar. Þannig að við kennarar erum ekki beint að leggja verkefni fyrir nemendur heldur eru þetta utanaðkomandi persónur sem þurfa hjálp fyrirtækisins til að leysa verkefni og fyrirtækið leysir þau í þágu þeirra,“ segir hann en þetta er gert til að reyna að ýta undir tilgang með náminu sem fram fer.

„Áður en fyrirtækinu berast verkefni þá er hlutverk nemenda sem sérfræðinga rammað inn og við skilgreinum vel starf sérfræðinganna innan fyrirtækisins. Áður en fyrstu verkefnin berast reynum við að dýpka aðeins ímyndunarheiminn sem við erum að vinna inni í. Það er hægt að gera á ýmsan hátt. Við umbreytum oftast skólastofunni svolítið, í einhvers konar skrifstofu, eða lögreglustöð eða hvað það er sem við erum að vinna í,“ segir hann en líka er búin til saga í kringum þetta. „Við erum ekki að gera fyrsta verkefnið okkar heldur erum við sérfræðingar með sögu og með góða vitneskju,“ segir hann.

„Verkefnin sem nemendurnir leysa eru skipulögð af okkur kennurum þótt þau komi frá utanaðkomandi aðilum með hliðsjón annars vegar af því hvað þessir sérfræðingar væru að leysa og hins vegar hvað það er sem við kennararnir ætlum að kenna samkvæmt aðalnámskrá og skólanámskrá. Öll verkefni sem við leggjum fyrir nemendur aðlögum við að þessum tveimur þáttum,“ segir Hákon.

Nemendur eru sérfræðingarnir

„Þegar við vinnum svona verður valdatilfærsla milli okkar og nemenda; nemendurnir eru sérfræðingar í einhverju tilteknu viðfangsefni. Kennararnir eru oftast í hlutverki líka og við erum oft með einhvers konar aðeins öðruvísi hlutverk en þeir til að þeir haldi sérfræðiþekkingunni. Nemendur eru alltaf í hlutverki fullorðinna, því sérfræðingar eru fullorðnir.“

Ýmislegt breytist þegar nemendur og kennarar fara í hlutverk. „Við merkjum t.d. að hegðun nemenda breytist oftast; þau hegða sér meira eins og fullorðnir einstaklingar. Hegðunarvandamál eru svo gott sem engin þegar við erum í hlutverki, sérstaklega núna eftir að við höfum gert nokkra svona leiki. Þau vita meira hvernig þau eiga að hegða sér þegar þau eru komin inn í ímyndunarheiminn. Það hvernig þau tala við okkur breytist þegar þau eru í hlutverki; þau eru almennt kurteisari, nota oft mörg hver fullorðinslegra tal,“ segir Hákon en þetta kemur til vegna þessarar valdatilfærslu. „Við erum búin að gefa þeim fullt af þeim völdum sem kennarinn hefur vanalega.“

Má ekki vera leiðinlegt

„Áhuginn hjá krökkunum er númer eitt, tvö og þrjú: að þau hafi áhuga og finnist gaman í skólanum. Ef það er ekki gaman í skólanum þá lærirðu ekki neitt.“

Sjálfum gekk Hákoni mjög vel námslega í grunnskóla. „En mér fannst hundleiðinlegt og meira og minna allt unglingastigið mitt gekk út á hversu hratt ég gæti gert verkefnin. Keppnin mín var aldrei að læra meira heldur var hún um hvernig ég gæti gert það sem ég var að gera hraðar. Ég var orðinn mjög snöggur. En það kom alveg í bakið á mér í menntaskóla en fyrsta árið hjá mér var slakt. Ég hafði engan áhuga á því sem ég var að gera. Ég hefði þannig séð getað flosnað upp úr námi á endanum,“ segir hann og grínast samt með að mamma hans hefði aldrei tekið það í mál.

Hann ítrekar að það skipti öllu máli að ná að vekja þennan áhuga hjá nemendum. „Ég held að það skipti öllu máli. Og þetta að krakkarnir segi ekki: „það er leiðinlegt í skólanum“. Það á ekki að vera þannig. Þetta er vinnan þeirra og við viljum fæst vinna við eitthvað sem okkur þykir ekki allavega smá gaman.“

Þetta er brot af viðtali sem birtist við Hákon Sæberg í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Nemendur í 4. bekk Árbæjarskóla.
Nemendur í 4. bekk Árbæjarskóla. mbl.is/Hari
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka