„Fólkið lýsir búðunum sem öðru helvíti,“ segir Eva Dögg Þórsdóttir um ástandið í Moria-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Lesbos. Eva var fyrir skömmu við sjálfboðaliðastörf í tvær vikur ásamt vinkonu sinni á eyjunni.
Þegar leitað er frétta af Moria-flóttamannabúðunum á erlendum fréttamiðlum kemur meðal annars fram að börn reyni frekar að fremja sjálfsvíg en að lifa í búðunum og að fólk hefði frekar viljað drukkna á leiðinni til eyjunnar.
Eva lýsir flóttamannabúðunum þannig að þær séu tvískiptar, þar sem annar hluti þeirra sé eins og fangelsi. „Þar eru um tíu þúsund manns í lokuðum búðum sem stjórnað er af lögreglu,“ segir Eva en í framhaldi af gaddavírsgirðingunum eru tjaldbúðir.
„Þar dvelja tæplega þrjú þúsund í miklum þrengslum. Fólk fær skammtaðan mat tvisvar á dag og salernisaðstaða er á einum stað efst í búðunum, skólpið flæðir og fólk gerir þarfir sínar úti um allt,“ segir Eva. Oft skapist óeirðir í matarröðinni, þar sem svöngu og pirruðu fólki af ýmsum þjóðernum og trúarbrögðum ægir saman.
Á þeim tveimur vikum sem Eva dvaldi á Lesbos komu tæplega 1.200 flóttamenn til eyjunnar „Síðustu dagana áður en ég fór heim þá var plássleysið orðið slíkt að fólk svaf á jörðinni undir berum himni, með ungabörn.“
Eva segir að tilfinningin sem sjálfboðaliðar fái eftir dvölina á Lesbos sé að gríska ríkið reyni að græða sem mest það getur á flóttafólkinu. Ríkið fær greitt fyrir hvern flóttamann sem það tekur á móti en Eva segir það morgunljóst miðað við aðstæður flóttafólks að lítill hluti þeirra peninga fari í það sem hann á að fara.
„Enginn sem ég ræddi við gerir sér grein fyrir því hvert peningarnir fara því fólkið fær ekkert,“ segir Eva og bætir við að auðvitað væri hægt að standa mun betur að komu flóttafólks til Lesbos.
„Peningarnir eru ekki notaðir til réttra hluta. Fólk deyr úr kulda í Moria á veturna af því að það frystir og fólk heldur til í þunnum tjöldum, svipuðum og eru notuð yfir hásumarið hér á landi.“
Eva kynntist flóttamanni frá Suður-Súdan sem var mjög góður í ensku og túlkaði fyrir hana þegar hún ræddi við annað flóttafólk. „Við ræddum við nokkrar fjölskyldur frá Írak og þau lýstu þessum fangabúðum sem hræðilegum stað. Þau voru ekki viss um að þau hefðu lagt upp í ferðalagið ef þau hefðu vitað hvað tæki við þeim þarna.“