71 kæra hefur borist lögreglu það sem af er þessu ári þar sem einstaklingar telja að sér hafi verið byrluð ólyfjan. Kærunum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu ellefu árum, eða úr 16 árið 2007 í 78 í fyrra. Á tíu ára tímabili, frá 2007-2017 hafa alls 434 kærur verið lagðar fram.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þar sem hún er spurð hversu margar kærur hafa borist lögreglu frá árinu 2007 vegna afbrota þar sem einstaklingur telur að sér hafi verið byrluð ólyfjan sem dregur úr meðvitund hans, sjálfstjórn eða getu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir?
Upplýsingarnar eru byggðar á gögnum frá embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara. Erfitt er að finna staðfesta tölfræði um þær kærur sem hafa borist lögreglu samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra þar sem byrlun er ekki skráð í málaskrárkerfi lögreglu sem sérstakt frumbrot og varðar ekki aðeins við eitt ákvæði almennra hegningarlaga. Því er ekki um staðfesta tölfræði að ræða.
Í svari dómsmálaráðherra segir að ekki sé ljóst hvað valdi fjölgun tilvika á tímabilinu en líklega sé um að ræða vitundarvakningu frekar en raunfjölgun tilvika.
Ekki liggja fyrir verklagsreglur um meðferð og skráningu mála þar sem grunur leikur á að um byrlun hafi verið að ræða en í svarinu kemur fram að drög að slíku verklagi liggja fyrir hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.