Upplifði tölvupóstinn sem hótun

Helga Jónsdóttir á blaðamannafundinum í dag.
Helga Jónsdóttir á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segist upplifa sem hótun tölvupóst sem Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur sem var sagt upp störfum hjá Orku náttúrunnar, sendi stjórnendum OR.

Þetta kom fram í viðtali við Helgu í Kastljósi.

Einar krafðist í tölvupóstinum tveggja ára launa til Áslaugar sem miska- og réttlætisbóta vegna uppsaagnar hennar. Í lok bréfsins segir hann að hægt sé að „klára málið okkar á milli“ eða fleirum verði blandað í málið.

Helga var spurð hvort stjórnendur OR hafi upplifað bréfið sem hótun. „Ég var ekki stjórnandi fyrirtækisins á þessum tíma en þegar ég les þetta upplifi ég það þannig.“ Hún bætti því við að það sé „ekkert til sem heitir 2 ára laun til einhverra sem hefur verið sagt upp með réttmætum hætti“.

Helga sagði það hafa blasað við sér að starfsandinn innan OR og viðmótið sem tók á móti henni hafi verið „afskaplega gott og ljúft“. „Fyrir mig að taka við sem forstjóri hefur verið einfalt viðfangsefni því mál eru mjög vel unnin í hendurnar á mér,“ sagði hún.

Spurð hvers vegna ekki hafi verið fengið óháð fyrirtæki eða aðili til að gera úttekt á vinnustaðarmenningu OR sagði hún innri endurskoðun Reykjavíkurborgar einnig vera innri endurskoðun OR. „Það hefði verið mjög óeðlilegt ef leitað hefði verið til annarra aðila.“

Hún sagði málið hafa verið unnið eftir mjög skýrum reglum sem gildi um innri endurskoðendur og að bestu sérfræðingar sem völ er á að hafi verið fengnir til starfa. Úttektin á vinnustaðarmenningunni hafi til dæmis verið unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. „Það er afskaplega erfitt að draga í efa að þarna hafi raunverulega verið óháð úttekt.“ Hún bætti við að hvorki borgin né starfsfólk OR hafi komið nálægt rannsókninni.

Spurð hvers vegna Áslaugu Thelmu hafi verið sagt upp sagði Helga að bæði hún og fyrirtækið séu bundin af lögum um persónuvernd. „Við munum ekki setja þær upplýsingar frá okkur til annarra.“ Bætti hún við að vandinn í umræðu sem þessari hafi verið sá að OR hafi verið bundið þessum trúnaði.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert