„Við getum klárað það okkar á milli“

Áslaug Thelma Einarsdóttir og Einar Bárðarson. Einar sendi stjórnendum OR …
Áslaug Thelma Einarsdóttir og Einar Bárðarson. Einar sendi stjórnendum OR ítarlegan tölvupóst þar sem hann segist reiðubúinn til þess að leysa mál konu sinnar gegn því að henni verði greitt laun til tveggja ára. mbl.is/Golli

„Við getum klárað það okkar á milli eða blandað mun fleirum í þá baráttu mína. Ég vænti þess að heyra frá ykkur skriflega fyrir klukkan 15:00.“ Þannig endar tölvupóstur þar sem Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, krefst greiðslu tveggja ára launa frá þrítugasta september þessa árs til Áslaugar sem miska- og réttlætisbætur vegna uppsagnar hennar hjá Orku náttúrunnar

Tölvupósturinn er birtur sem viðauki við skýrslu Innri endurskoðunar um vinnustaðamenningu hjá OR og var hann sendur til Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, og Sólrúnar Kristjánsdóttur, starfsmannastjóra fyrirtækisins, þann ellefta september.

Opna fundi fyrir VR

Einar byrjar mál sitt á að kynna fyrirætlanir sínar um fund með Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, og að hann hafi verið beðinn um að halda kynningarfundi á vegum stéttarfélagsins og að einn þeirra mun fjalla um #metoo-byltinguna. Segist Einar hafa dottið það í huga að fá Áslaugu til þess að segja frá reynslu sinni hjá ON.

„Ég og Áslaug Thelma konan mín erum að fara að hitta Ragnar Þór Ingólfsson vin okkar og framkvæmdastjóra VR núna klukkan þrjú. Ég og Ragnar Þór ætluðum að hittast í dag og fundurinn var settur á í síðustu viku en hann hefur beðið mig að taka það að mér að halda utan um og kynna nokkra opna fundi sem honum langar að VR standi fyrir núna í haust,“ segir í tölvupóstinum.

„Spurning hvort annað hvort ykkar væri svo til í að koma og ræða hlið OR og þá ON á því af hverju karl stjórnendur sem senda kvenstjórnendum pósta eins og þennan hér að neðan fái að halda starfi ? Það gæti verið áhugaverð umræða ?“ spyr Einar.

Hann bætir síðan við að það standi til að fjalla sérstaklega um störf Bjarna og Sólrúnar á fyrirhuguðum fundi. „En svo ætlum við auðvitað að ræða framgöngu ykkar beggja í jafnréttismálum og Me Too málum út á við það sem þið segið öðrum hvað þið standið ykkur vel og hversu aðdáunarverður árangur ykkur í þeim efnum hefur verið.“

Póstur til borgarstjóra

Tölvupósturinn er nokkuð ítarlegur en þar segist Einar vera að vinna að tölvupósti sem hann gerir ráð fyrir að senda Degi B. Eggertssyni borgarstjóra við lok dags. „Ég er einnig að skrifa Degi Eggertssyni tölvupóst um þetta og sendi honum hann í lok dags þegar ég hef fíniserað hann. En þar bið ég hann að skoða mál Áslaugar því það er á hans ábyrgð á hans vakt.“

Einar telur upp fjölda atvika sem hann segir sýna fram á slæma framkomu í garð eiginkonu sinnar og krefst síðan að Bjarni og Sólrún endurskoði afstöðu sína til uppsagnar Áslaugar.

„Mér fyndist eðlilegt í ljósi framgöngu ykkar sem stjórnenda innandyra og svo hróplegs ósamræmis þess opinberlega að þið greiðið henni 2 ár í launum frá og með 30. september í miska- og réttlætisbætur fyrir þessa framkomu og borgið einnig fyrir alla þá sérfræðiaðstoð sem hún kann að þurfa að leita sér fyrir sál og líkama eftir þetta áfall,“ segir Einar.

Að lokum segir að hægt sé að „klára málið okkar á milli“ eða að fleirum verði blandað í málið. Krefst Einar skriflegs svars fyrir klukkan þrjú síðdegis sama dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert