„Þetta fyrirtæki, Stakksberg, er að halda kynningarfund annað kvöld klukkan átta. Ég verð að segja það að mér finnst það sæta mikilli furðu hversu illa sá fundur sé kynntur,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, við mbl.is um íbúafund sem Stakksberg, rekstraraðili kísilmálmverksmiðju í Helguvík, heldur í Hljómahöllinni annað kvöld.
Félagið Stakksberg áætlar að fjárfesta fyrir um 4,5 milljarða króna í úrbótum á kísilverksmiðju félagsins í Helguvík. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu miða úrbætur að því að gera verksmiðjuna fullbúna til framleiðslu, koma til móts við athugasemdir íbúa í Reykjanesbæ og uppfylla skilyrði Umhverfisstofnunar fyrir starfsemi verksmiðjunnar.
„Mér skilst að hann [fundurinn] hafi verið auglýstur með tveggja daga fyrirvara á einhverri vefsíðu. Ekki í bæjarblaði eða öðru, ég skil ekki svona vinnubrögð. Ég vonast til þess að þetta sé ekki það sem koma skal og að menn muni reyna að hafa þetta ferli eins opið og gagnsætt eins og hægt er. Það held ég sé öllum til góða,“ segir Jóhann Friðrik.
Hann bætir því við að hann fagni, þrátt fyrir annmarkana, því að Stakksberg hyggst kynna sín áform, „en það er auðvitað bara einhliða kynning þessa fyrirtækis.“
„Félagið virðist bara halda sínum sjó og ætlar bara að koma þessari verksmiðju aftur í gang,“ segir Jóhann Friðrik og ítrekar mikilvægi aðkomu bæjarbúa að málinu.
„Meirihlutinn í Reykjanesbæ mun leita allra leiða til þess að tryggja aðkomu bæjarbúa að þessu ferli. Við erum bara ekki komin á þann stað að hægt sé að segja til um hvernig það verður,“ upplýsir hann
Spurður um hvernig mál standa nú vegna kísilversins í Helguvík segir forseti bæjarstjórnarinnar að stefna meirihlutans sé skýr. „Afstaða meirihluta bæjarstjórnar til framvindu mála er að meirihlutinn hafnar mengandi stóriðju í Helguvík, það er númer eitt. Númer tvö er það að Reykjanesbær er auðvitað bundinn af samningum sem hefur ekkert með pólitíska stefnu að gera. Við verðum auðvitað að lúta því.“
Hann vísar síðan til þess að Stakksberg hafi sótt um deiliskipulagsbreytingu fyrir um mánuði og vildi ráðast í þær breytingar samhliða umhverfismati. „Því var hafnað í bæjarstjórn og í kjölfarið var ákveðið að óska eftir upplýsingum frá Skipulagsstofnun um það hvernig sveitarfélagið á að bera sig að í þessari fordæmalausu stöðu sem núna er uppi.“
Inntur álits á orðum sínum um að sveitarfélagið sé bundið samningum og hvort það þýði að Reykjanesbær þurfi að sætta sig við að kísilverið verði ræst á ný þrátt fyrir andstöðu, segist Jóhann Friðrik alls ekki telja svo vera.
„Það er bara uppi álitamál hvort það umhverfismat sem var í gildi fyrir gjaldþrota fyrirtækið að það hreinlega haldi og hvort rekstrarleyfi og annað sem tengt er því umhverfismati sé löglegt. Það er alveg ljóst að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélaginu og það liggur í hlutarins eðli að til þess að þessi verksmiðja geti hafið starfsemi verður sveitarfélagið að taka ákvarðanir um skipulagsmál á svæðinu, vegna þess að núverandi verksmiðja er ekki í samræmi við gildandi skipulag.“
Blaðamaður spyr þá hvort bæjaryfirvöld hyggist reyna með einhverju móti að koma í veg fyrir að starfsemi hefjist, þrátt fyrir að kísilverið myndi uppfylla fyrrnefnd skilyrði í kjölfar aðgerða til umbóta.
„Við höfum svo sem ekki tekið neina sérstaka ákvörðun um það og ég veit ekki alveg hvernig það væri hægt að gera það. Við erum ekki búin að tala okkur niður á neitt slíkt. Við erum bara að reyna að fara eftir gildandi lögum og reglum og samhliða því taka mið af vilja íbúanna og pólitískri stefnu,“ svarar Jóhann Friðrik.
Heldur þú að kjósendum hafi verið það ljóst þegar framboðin lýstu því yfir að þau myndu hafna mengandi stóriðju í Helguvík, að það gæti hugsanlega farið svo að sveitarstjórnin gæti ekki komið í veg fyrir að rekstur hefst að nýju?
„Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég held að staðan sé bara þannig að hvorki þeir né við, né þetta fyrirtæki, né nokkur annar viti hvernig ferlið verður héðan í frá, vegna þess að ekki eru nein sérstök fordæmi fyrir þessari stöðu.
Er þá ekki svolítið djúpt í árina tekið að lýsa því yfir að hafna mengandi stóriðju þegar ekki er vitað hvort sé hægt að stöðva það?
„Nei. Ég held að pólitísk stefna gangi auðvitað út á pólitískan vilja þeirra sem eru að kjósa og þeirra aðila sem eru í framboði og það er alveg ljóst. Það er eitt og síðan er spurning hvernig er hægt að leita leiða til þess að tryggja það að mengandi stóriðja eigi sér ekki stað í Helguvík. Það er okkar hlutverk að tryggja það.“