Hreyfum okkur hægar en vandinn eykst

Guðlaug segir enga eina aðgerð duga. „Það þarf að fjölga …
Guðlaug segir enga eina aðgerð duga. „Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum og það þarf líka að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun,“ segir hún. Mynd úr safni af bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg

„Það gengur mjög hægt að útskrifa,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, vakti athygli á því í pistli sínum um helgina að „frá­flæðis­vand­inn“, eða út­skrift­ar­vandi aldraðra, sé nú í áður óþekkt­um hæðum.

Sagði Páll að 130 ein­stak­ling­ar sem lokið hafa meðferð og hafi færni- og heil­sum­at og bíði rým­is á hjúkr­un­ar­heim­ili, séu enn á spít­al­an­um. Hef­ur þetta áhrif á fjórðung alls bráðarým­is á spít­al­an­um.

Guðlaug Rakel samsinnir því að fráflæðisvandinn sé að ná áður óþekktum hæðum. „Eins og staðan er núna eru 46 af þessum 130 á Vífilsstöðum og bíða þar. Aðrir bíða á Landakoti og legudeildum Landspítalans og síðan eru 15-20 í skilgreindum rúmum á Vesturlandi,“ segir hún.

Spítalinn hafi fá úrræði til að bregðast við þessari stöðu og þá séu einnig rúm lokuð á Landspítalanum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. „Það bætir náttúrulega gráu ofan á svart, en þetta er veruleikinn.“

Fólk í bið eftir hjúkrunarheimili liggur að hennar sögn á spítalanum í um þrjá mánuði þegar búið er að samþykkkja færni- og heilsumat, áður en það kemst að og í verstu tilfellum slagar vistin á sjúkrahúsinu upp í um ár.

Ekki einangrað við Landspítalann

„Þetta er samfélagslegt mál,“ segir Guðlaug. „Þetta er ekki einangrað við Landspítalann, heldur er þetta málefni kerfisins alls.“ Áform séu uppi um að fjölga hjúkrunarrýmum og það sé vel, en fleira þurfi að koma til. „Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum og það þarf líka að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun. Það er engin ein aðgerð sem dugir.“

Í pistli sínum sagði Páll fráflæðisvandann koma illa við bráðaþjónustu. „Þetta get­ur haft vond áhrif á þjón­ustu við bráðveika, unga sem aldna, enda náum við ekki að nýta allt að fjórðungi bráðarýma eins og ætlað er,“ sagði hann í pistlinum. Guðlaug samsinnir því að þetta hafi áhrif á þjónustu við bráðveika. „Þeir bíða þá á bráðamóttöku eftir að komast í rúm þar sem ekki eru laus rúm, þannig að þetta er eins og snjóbolti sem rúllar áfram.“

Hjúkrunarrýmum á að fjölga á næsta ári og segir hún það vissulega jákvætt, en það breyti ekki stöðunni núna. Það hefur bara verið þannig að við hreyfum okkur hægar en vandinn eykst. Við erum ekki í takt,“ segir Guðlaug.

Hún telur spítalayfirvöld engu að síður vera að ná eyrum stjórnvalda og borgaryfirvalda. „Ég held að fólk geri sér alveg grein fyrir þessu,“ segir Guðlaug og vonar að staðan fari að færast til betri vegar. „Þetta helst þó líka í hendur við mönnun hjá okkur og okkur vantar fleiri hjúkrunarfræðinga til að opna fleiri rúm og fleiri sjúkraliða.“ Skortur á öðrum heilbrigðisstarfsstéttum sé vissulega líka fyrirsjáanlegur, en þetta sé sá vandi sem er mest aðkallandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert