Áslaugu Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni hjá Orku náttúrunnar, var sagt upp vegna frammistöðuvanda. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Áslaugar Thelmu, og Helgu Jónsdóttur, starfandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, frá því í morgun og greint er frá á vef RÚV. Í póstinum er vitnað í kafla úr skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem hefur ekki verið birtur vegna persónuverndarlaga.
Í póstinum kemur einnig fram að Sigurður telur að uppsögn Áslaugar Thelmu hafi verið ólögmæt og sé því varla réttmæt. Að hans mati er Áslaug Thelma enn starfsmaður ON en í einhvers konar leyfi. Þá telur hann að skýrsla innri endurskoðunar staðfesti að ekki hafi verið brugðist við kvörtun hennar um óviðeigandi hegðun Bjarna Más Júlíussonar, þáverandi yfirmanns hennar, þar sem engin úttekt hafi farið fram í kjölfar kvörtunar hennar.
Sigurður vísar einnig í ákvæði 27. greinar jafnréttislaga, sem bannar uppsögn og fleira vegna kæru eða leiðréttingarkröfu. Í svari sínu tekur Helga fram að fjallað sé um umrædda grein í skýrslu innri endurskoðunar og vísar hún í þann kafla sem ekki hefur verið birtur þar sem segir: „Á þeim grundvelli er það niðurstaða innri endurskoðunar að uppsögn vegna frammistöðuvanda hafi verið réttmæt en rétt hefði verið að tilgreina ástæður uppsagnar skriflega í uppsagnarbréfi með vísan til þess að ákvæði 27. gr. jafnréttislaga átti við um uppsögnina.“
Ekki náðist í Sigurð G. Guðjónsson, lögmann Áslaugar Thelmu, við vinnslu fréttarinnar.