Loftmengun mælist yfir heilsuverndarmörkum

Þurrar götur og stillt og kalt veður hafa gert það …
Þurrar götur og stillt og kalt veður hafa gert það að verkum að styrkur svifryks hefur mælst hátt yfir meðaltali á Akureyri síðustu daga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Klukku­tíma­gildi svifryks við Strandgötu á Akureyri mælist nú 199 míkró­grömm á rúm­metra. „Þetta gerist gjarnan við þessi skilyrði sem eru núna; þurrar götur, stillt veður og frekar svalt í lofti,“ segir Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, í samtali við mbl.is.

Allt yfir 100 µg/m3 þykja lítil loftgæði og er einstaklingum með ofnæmi eða alvarlega hjarta- eða lungnasjúkdóma ráðlagt að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun.

Samkvæmt loftgæðamæli Umhverfisstofnunar hefur klukkutímagildi svifryks við Strandgötu tvisvar sinnum verið nálægt 250 µg/m3, um klukkan 21 í gærkvöldi og á hádegi í dag.

Enn á eftir að kólna í veðri og segir Alfreð að loftgæðin geti mögulega minnkað enn frekar næstu daga. „Svifrykið rýkur upp mjög auðveldlega vegna umferðar og þetta gerist snemma morguns þegar bílarnir fara af stað byrjar rykteppið að lyftast og hnígur svo niður á kvöldin. Svo endurtekur þetta sig daginn eftir.“

Kallar eftir frekari viðbrögðum frá Akureyrarbæ

Bæjaryfirvöld hafa aukið þvott á götum að sögn Alfreðs og til stendur að gefa út aðvörun vegna næstu daga. Alfreð veit ekki til þess að fólk hafi leitað til heilbrigðiseftirlitsins vegna óþæginda vegna slæmra loftgæða.

Sól­ar­hrings­heilsu­vernd­ar­mörk­in fyr­ir svifryk eru 50 µg/m3 en þegar styrkurinn er kominn yfir 150 µg/m3, eins og í dag, geta þeir einstaklingar sem eiga ekki við vandamál að stríða fundið fyrir óþægindum.

„Það er nauðsynlegt að Akureyrarbær taki þetta fastari tökum en hefur verið, ástandið kallar á það,“ segir Alfreð.  

Hér má fylgjast með mælingum á loftgæðum á Akureyri

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka