Bráðabirgðaviðgerðir á flutningaskipinu Fjordvik hófust í fyrradag og ganga vel. Ljóst er að umfang skemmda á skipinu er gríðarlegt og að mikið verk verður að gera skipið hæft til siglinga.
Þetta staðfestir Ásbjörn Helgi Árnason, verkefnastjóri hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar sem sér um viðgerðirnar í Hafnarfirði.
Fulltrúar eigenda og tryggingafélaga eru á staðnum og fylgjast með viðgerðunum. Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvort ráðist verður í frekari viðgerðir á skipinu, en óvíst þykir hvort það borgi sig að gera við það.
Hlutverk Vélsmiðjunnar er einungis að gera bráðabirgðaviðgerð á skipinu til að hægt sé að koma því frá Íslandi, hvort sem því verður síðan fargað eða við það gert.
Flutningaskipið Fjordvik strandaði í Helguvík á Reykjanesi fyrir rúmum tveimur vikum. Nokkra daga tók að koma skipinu frá strandstað, en það var flutt til Keflavíkur og síðan til Hafnarfjarðar í síðustu viku, þar sem það var sett í flotkví.