Hnúfubakur á svamli við hafnarbakkann

„Þetta var alveg magnað. Þetta er „once in a lifetime-dæmi“, alveg ótrúlegt,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Special Tours Wildlife Adventures, sem náði myndskeiði af hnúfubaki að svamla í sjónum við hafnarbakkann á Skarfabakka.

Bátar frá fyrirtækinu höfðu verið staddir á milli Viðeyjar og Skarfabakka að skoða hnúfubak en Arinbjörn fór akandi að Skarfabakka í von um að sjá spendýrið. „Við ákváðum að koma okkur á Skarfabakkann og sáum þá að hnúfubakurinn var bara að svamla við vitann á Skarfabakka og náðum þessu myndskeiði,“ greinir hann frá og segir þetta afar sjaldgæfa sjón.

„Það er magnað að sjá svona stóra skepnu hérna alveg við höfnina. Hann var alveg upp við okkur,“ bætir hann við.

„Það er víst nóg af síld er í flóanum og nálægt landi. Menn hafa verið að sjá þennan hnúfubak upp á síðkastið í bátunum og í síðustu viku sást til háhyrninga. Þetta er pínu óvenjulegt kannski líka miðað við tíma árs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert