Fólk á aldrinum 25 til 34 ára stendur öðrum langt að baki þegar kemur að eldvörnum á heimilinu, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Eldvarnabandalagið.
Hvort sem litið er til fjölda reykskynjara eða slökkvibúnaðar stendur þessi hópur mun lakar að vígi en aðrir. Könnunin er kynnt í tilefni þess að Eldvarnaátak LSS hefst á morgun og stendur fram í aðventubyrjun, að því er segir í tilkynningu.
Tíu prósent svarenda á aldrinum 25 til 34 ára hafa engan reykskynjara og önnur 24 prósent aðeins einn, samkvæmt könnun Gallup. Hlutfall þeirra sem hafa engan reykskynjara er mun lægra í öðrum aldurshópum, allt niður í þrjú prósent.
Sömu sögu er að segja þegar litið er til slökkvitækja og eldvarnateppa á heimilum. Fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra til að hafa slíkan búnað á heimilinu en aðrir. Þannig segjast aðeins 49 prósent unga fólksins eiga eldvarnateppi en þetta hlutfall er allt að 66 prósent í öðrum aldurshópum og yfir 60 prósent að meðaltali.
Dregið hefur saman með leigjendum og þeim sem búa í eigin húsnæði hvað varðar slökkvitækjaeign miðað við fyrri kannanir enda hefur nú verið bundið í lög að slökkvitæki skuli vera í leiguhúsnæði.
Helstu niðurstöður könnunar Gallup:
Eldvarnarátaki LSS verður ýtt úr vör í Lækjarskóla í Hafnarfirði kl. 10.30 á morgun. Í kjölfarið heimsækja slökkviliðsmenn um allt land börn í 3. bekk grunnskóla landsins og fræða þau um grunnatriði eldvarna nú í aðdraganda aðventunnar. Þeir gera börnunum grein fyrir aukinni eldhættu á aðventunni vegna mikillar notkunar kerta- og rafmagnsljósa og brýna fyrir þeim mikilvægi þess að nauðsynlegur eldvarnabúnaður sé á hverju heimili. Þá er átt við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Börnin eru einnig minnt á neyðarnúmerið 112.