Telur að VG hafni orkupakkanum

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Vinstri hreyfingin  grænt framboð mun væntanlega leggjast gegn því að innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn verði samþykkt á Alþingi. Þetta er mat Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra flokksins.

Vaxandi andstaða við samþykkt þriðja orkupakkans, ekki síst innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, er tilefni skrifa Ögmundar um málið á vefsíðu sinni  en hann segist reikna með að VG leggist einnig gegn því að hann verði samþykktur. „Annað væri hreinlega órökrétt.“

Vísar Ögmundur þar til þess að VG beitti sér gegn því að fyrsti og annar orkupakki Evrópusambandsins yrði samþykktur hér á landi á sínum tíma en þriðji pakkinn er framhald þeirra. Fyrir vikið hljóti málið að vera úr sögunni: „Er málið þá ekki úr sögunni, afgreitt?“

Ögmundur segir að EES-samningurinn hafi sífellt gerst ágengari á íslensk innanríkismál í gegnum tíðina. Þar hafi tekist á lýðræðislegur vilji og „málmköld markaðshyggja“. Hvað þriðja orkupakka Evrópusambandsins varðar segir Ögmundur að hann herði hann enn fastar tök markaðshyggjunnar á orkulindum þjóðarinnar.

„Vonandi verður umræða um þriðja orkupakkann til þess að opna á gagnrýna og upplýsta umræðu um EES-samninginn, kosti hans og þá ekki síður galla, sem eru ótvíræðir og hafa að mínum dómi valdið miklu félagslegu og efnahagslegu tjóni.“

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem fyrirtækið Maskína gerði fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, síðasta vor voru 80,5% landsmanna andvíg því að færa vald yfir íslensk­um orkumálum til evrópskra stofnana en 8,3% hlynnt. Þar af 86,3% kjósenda VG en enginn sagðist hlynntur því.

Mikill meirihluti stuðningsmanna allra flokka sem sæti eiga á Alþingi sagðist andvígur því að færa vald yfir íslensk­um orkumálum til evrópskra stofnana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert