Almannahagsmunir að hann gangi ekki laus

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir hrottalegar …
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir hrottalegar líkamsárásir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lands­rétt­ur hef­ur staðfest fram­leng­ingu á gæslu­v­arðhaldi yfir manni sem grunaður er um al­var­lega lík­ams­árás á dyra­vörð á skemmti­staðnum Shooters, 26. ág­úst, til 14. desember. 

Héraðssaksóknari hefur höfðað sakamál yfir manninum fyrir tvær líkamsárásir á og framan við skemmtistaðinn Shooters. Samkvæmt ákærunni er manninum gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás við nafngreindan mann og tvo óþekkta menn með því að hafa veist með ofbeldi að dyraverði á staðnum og veitt honum ítrekuð hnefahögg í andlit, höfuð og líkama, sparkað ítrekað í líkama hans og þrjú hnéspörk í andlit auk þess að hafa haldið dyraverðinum og togað í hann þannig að hann komst ekki undan. 

Jafnframt er árásarmanninum gefin að sök stórfelld líkamsárás gagnvart félaga hans, með því að hafa veitt honum hnefahögg í andlit, elt hann er maðurinn reyndi að komast undan og hrint honum þannig að dyravörðurinn féll fram fyrir sig, niður tvö þrep, höfuð hans skollið á hurð og hann fallið á magann á gólfið. Eins að hafa veitt honum nokkur hnefahögg og spörk í andlit þar sem dyravörðurinn lá. Dyravörðurinn hlaut við ofbeldið áverka á mænu, margþætt brot í fimmta hryggjarlið og er lamaður fyrir neðan háls.

Er það mat ákæruvaldsins að maðurinn, sem situr í gæsluvarðhaldi, sé undir sterkum grun um að hafa gengið í skrokk á báðum mönnunum og ef hann verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi. Jafnframt sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að honum sé haldið í gæsluvarðhaldi.

Dómurinn fellst á þetta með ákæruvaldinu og telur engin rök hníga til þess að gæsluvarðhaldi ákærða verði markaður skemmri tími. Ekkert hafi breyst frá því Landsréttur staðfesti fyrri gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert