Helga kynnti skýrsluna í borgarráði

Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri OR.
Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri OR. Ljósmynd/Aðsend

Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, kynnti skýrslu innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um vinnustaðarmenn­ingu og mannauðsmál hjá OR fyr­ir full­trú­um í borg­ar­ráði á fundi ráðsins í morgun. Þetta staðfestir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, í samtali við mbl.is.

Helga yfirgaf fundinn að kynningunni lokinni en fundur ráðsins stendur enn yfir enda eru alls 50 mál á dagskrá borgarráðs í dag.

Í skýrsl­unni er fjallað um vinnustaðarmenn­ingu inn­an OR sem og nokk­ur starfs­manna­mál, meðal ann­ars upp­sagn­ir tveggja stjórn­enda hjá Orku nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fyr­ir­tæki OR, sem voru metn­ar rétt­mæt­ar. Greint var frá því í fyrradag að Áslaugu Thelmu Ein­ars­dótt­ur, fyrr­ver­andi for­stöðumanni hjá Orku nátt­úr­unn­ar, var sagt upp vegna frammistöðuvanda. Það kom fram í tölvu­póst­sam­skipt­um Sig­urðar G. Guðjóns­son­ar, lög­manns Áslaug­ar Thelmu, og Helgu, starfandi forstjóra OR, þar sem vísað var í kafla skýrslunnar sem var ekki gerður opinber sökum persónuverndarlaga.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa bæði lýst því yfir að þau muni tjá sig um efni skýrslunnar að fundi loknum.

Stjórn Orku­veit­unn­ar hef­ur falið Helgu Jóns­dótt­ur, starf­andi for­stjóra OR, að fara yfir alla skýrsl­una og gera til­lög­ur um meðferð ein­stakra þátta sem fjallað er um í skýrsl­unni og leggja til viðeig­andi málsmeðferð. Stjórnarfundur hjá OR er áætlaður á mánudag og samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa OR mun Helga líklega skila tillögum sínum fyrir fundinn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert