Hvorki sú fyrsta né síðasta

Að sögn Önnu Sigrúnar er óalgengt að yfirfullt sé á …
Að sögn Önnu Sigrúnar er óalgengt að yfirfullt sé á bráðaöldrunarlækningadeild. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum miður okkar og hörmum að þurfa að bjóða fólki upp á aðstæður sem þessar. Staðan er sú að fjöldi þeirra einstaklinga sem bíður eftir hjúkrunarrými er í hámarki. Allt svona hefur afleiðingar, þetta eru ekki bara orð og tölur á blaði, heldur verða einstaklingar fyrir afleiðingum þessa og þetta er dæmi um það,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í morgun að 92 ára gömul kona hafi þurft að eyða nóttinni inni á salerni á bráðaöldrunarlækningadeild Landspítalans í Fossvogi vegna plássleysis.

„Aðstæðurnar eru ekki í samræmi við okkar faglegu markmið, þó að þjónustan sé það, og þetta er ekki fyrsti sjúklingurinn sem lendir í þessu og ekki sá síðasti, því miður,“ segir Anna Sigrún.

Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Áður en konan var flutt á bráðaöldrunarlækningadeild hafði hún dvalið á lyflækningadeild til nokkurra daga, en þar áður á bráðamóttöku til tveggja daga.

Í allt að sex daga á bráðamóttöku

„Okkar ósk er að meðaltími á bráðamóttöku sé um sex klukkustundir frá því að innlögn er ákveðin. Við erum hins vegar í þeirri stöðu að meðaltíminn er 23 klukkustundir, sem þýðir að sumir eru lengur, og allt upp í sex daga á bráðamóttöku.“

Anna Sigrún segir að engin aðstaða sé til langrar legu á bráðamóttöku, þar sem allt að tíu þurfi að deila herbergi, og að aðstæður séu sérstaklega erfiðar fyrir eldra fólk. „Við veitum auðvitað bestu faglegu þjónustu sem við getum, þrátt fyrir aðstæður. Þetta er svona víða á spítalanum.“

Að sögn Önnu Sigrúnar er óalgengt að yfirfullt sé á bráðaöldrunarlækningadeild. „Á þessari deild er engin aðstað til að leggja fólk á gangana eins og við gerum stundum annars staðar. Þess vegna kemur fyrir að fólki er rúllað inn á baðherbergi fyrir nóttina, en við gerum eins lítið af því og við getum.“

„Um leið og það losnar eitthvað annað er þeim svo komið fyrir í betra rými, en þá getur gerst að einhver annar lendi inni á baðherbergi yfir nótt í staðinn.“

Anna Sigrún segir ekki síður ömurlegt fyrir starfsfólk að þurfa að bjóða sjúklingum sínum upp á þessar aðstæður. Aðspurð segist hún gera ráð fyrir því að ástandið versni áður en það batnar. „Við erum eftir á í uppbyggingu hjúkrunarrýma, en það er öflug bylgja á næsta ári og við eigum von á að þetta lagist. Þangað til erum við í erfiðri stöðu.“

„Svo verður að halda áfram að hraða uppbyggingu hjúkrunarrýma og annarra úrræða því öldruðum í samfélaginu fjölgar hratt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert