Risavaxin þakkargjörðarhátíð var haldin í Hámu á Háskólatorgi í dag þar sem eldaður var matur fyrir um 800 manns. Í boði voru 150 kíló af hreinu kalkúnakjöti, rúmlega 40 kíló af fyllingu, 50 lítrar af sósu og heill hellingur af sætum kartöflum og öðru meðlæti. Vegan-útgáfa var einnig í boði fyrir þá sem það vildu.
Þetta er annað árið í röð sem Félagsstofnun stúdenta stendur fyrir viðburðinum en í fyrra var eldað fyrir um 500 manns og komust færri að en vildu.
„Það er meira en að segja það að elda svona mat fyrir allan þennan mannfjölda í ekki stærra eldhúsi. Í fyrra sagði Óli yfirkokkur að hann myndi aldrei gera þetta aftur en síðan stóð hann í ströngu í morgun og er búinn að vera að í tvo daga ásamt hinu stórkostlega starfsfólki Hámu,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.
Rebekka segir þessa hefð afskaplega skemmtilega, þó svo sumir láti það fara í taugarnar á sér þegar Íslendingar taka upp siði annarra þjóða. Hún bendir á að á háskólasvæðinu sé fólk sem komi alls staðar að úr heiminum. „Okkur finnst full ástæða til þess að taka þátt í eins mörgum hátíðum og við getum vegna þess að það er bara skemmtilegt. Við erum algjörlega fordómalaus gagnvart hátíðum annarra þjóða.“
Hún segir viðburð sem þennan góða tilbreytingu fyrir nemendur skólans, sem eru um 12 þúsund talsins, og starfsmennina sem eru í kringum tvö þúsund. Núna styttist í próf og þess vegna sé gaman að gera eitthvað öðruvísi. Þegar nær dregur jólum verður til að mynda boðið upp á purusteik í Hámu. „Í miðju verki eins og núna spyrjum við okkur „hvernig datt okkur þetta í hug?“ en svo kláruðu þetta allir með glans og allir eru sáttir.“
Ólafur Ragnar Eyvindsson yfirmatreiðslumaður segir að allir hafi verið ofboðslega ánægðir með matinn í dag og að röðin hafi náð langt inn á Háskólatorg. Eins og gefur að skilja eru nemendur og kennarar stærsti hluti þeirra sem hafa gætt sér á kræsingunum. Töluvert hefur samt verið um það að gestir og gangandi hafi litið við, þar á meðal útlendingar. Ekki skemmi þar fyrir að verðið er aðeins 1.140 krónur fyrir almenning en 880 krónur fyrir nemendur.
Hann segir hefðina skemmtilega og ætlar tvímælalaust að gera þetta aftur á næsta ári þrátt fyrir að hafa sagt í fyrra að hann myndi aldrei leggja í þetta aftur. „Ég var búinn að gleyma því daginn eftir. Í fyrra var uppselt klukkan hálfeitt þannig að ég bætti bara í núna,“ segir hann hress.