Vilja friðlýsa Dranga á Ströndum

Drangaskörð í Árneshreppi.
Drangaskörð í Árneshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Tekin hefur verið ákvörðun um það af hálfu eigenda jarðarinnar Dranga í Árneshreppi á Ströndum að kanna fýsileika þess að friðlýsa jörðina að hluta eða öllu leyti og hefur greinargerð þess efnis verið send til umhverfisráðuneytisins. Markmiðið er ekki síst að sögn eigenda að verjast vaxandi ásókn sterkra aðila til að nýta vatnsföll og vatnasvæði til virkjana eða annarra athafna en til stendur að reisa Hvalárvirkjun í hreppnum.

Fram kemur í greinargerðinni að Drangar séu landnámsjörð, þar hafi numið land Þorvaldur Ásvaldsson, faðir Eiríks rauða sem síðar flutti til Grænlands, en Eiríkur var faðir Leifs heppna Eiríkssonar. Þar segir enn fremur að Eiríkur hafi búið á Dröngum eftir föður sinn og færa megi líkur að því að jörðin sé fæðingarstaður Leifs sonar hans. Jörðin er yfir 100 ferkílómetrar að flatarmáli og nær frá hábungu Drangajökuls að sjó á milli Bjarnarfjarðar og Drangavíkur.

Mikil náttúrufegurð á svæðinu

„Tveir einstaklingar eiga nú lögheimili að Dröngum og er þar stunduð atvinnustarfsemi, s.s. dúntekja, fiskveiðar, selveiði og rekaviðarnytjar. Eitt íbúðarhús og þrjú sumarhús eru á Dröngum. Í deiliskipulagi fyrir jörðina er gert ráð fyrir 14 sumarhúsalóðum við heimatúnin. Vegasamband er ekki við Dranga og samgöngur því á sjó,“ segir enn fremur í greinargerðinni.

Sömuleiðis kemur fram að land jarðarinnar sé að langmestu leyti óbyggð víðerni. „Landslag er tilkomumikið, jarðfræði fjölbreytileg, gróðurfar sérstakt og náttúrufegurð almennt mikil á svæðinu. Dalir og hvilftir eru grafnar af jöklum ísaldar í almennt einsleitan og mjög reglulegan jarðlagastafla. Á milli basalthraunlaga eru rauðleit setlög, oftast forn jarðvegur að uppruna. Víðernisupplifun er mikil og svæðið nær óraskað. Svæðið er hluti af víðáttumesta samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum.“

Þinglýstur eigandi jarðarinnar Dranga er félagið Fornasel ehf., en hlutahafar eru börn og barnabörn Kristins Halls Jónssonar og Önnu Jakobínu Guðjónsdóttur, sem voru síðustu ábúendur að Dröngum. Tekin var ákvörðun um að kanna með mögulega friðlýsingu á fundi eigenda jarðarinnar í síðusta mánuði og hefur verið óskað eftir fundi með Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra hið fyrsta um málið.

Vilja verjast ásókn sterkra aðila

Rakið er í bréfi til umhverfisráðherra að á fundi landeigendanna í síðasta mánuði hafi komið fram afdráttarlaus sjónarmið um mikilvægi þess að huga að verndun víðerna á Ströndum. Landeigendur horfi einkum til vaxandi ásóknar sterkra aðila til að nýta vatnsföll og vatnasvæði til virkjana eða annarra athafna. Vilji eigenda standi til þess að beita sér fyrir verndun þeirra miklu víðerna er tilheyra jörðinni í þeim tilgangi að núlifandi fólk og kynslóðir framtíðar gætu notið þeirra óspilltra og óraskaðra.

„Við fórum að tala um þessa friðlýsingu fyrir mörgum árum, systkinin. Við nytjum enn jörðina og höfum hugsað okkur að gera það áfram, enda teljum við það fara vel saman við friðlýsingu hennar. Nú höfum við loksins stigið þetta skref, og haft frumkvæði að því að tala við stjórnvöld um það og eigum ekki von á öðru en að hugmyndum okkar verði vel tekið. Vonum við að þetta hreyfi líka við fleirum, bæði á Ströndum og á öðrum stöðum á landinu þar sem við eigum enn þá víðerni,“ segir Sveinn Kristinsson, einn eigendanna.

Frá Árneshreppi.
Frá Árneshreppi. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert