40 milljónir á ári til Bakkaflóa

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur sem miða að því að efla …
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur sem miða að því að efla byggð við Bakkaflóa. Er þar meðal annars lagt til að auka aflaheimildir. mbl.is/Kristinn Benediktsson

Nefnd sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, skipaði til að fjalla um málefni byggðarinnar hefur lagt til að ríkið verji allt að 40 milljónum króna á ári í fimm ár til undirbúnings verkefna á Bakkaflóasvæðinu.

Á grundvelli skýrslu nefndarinnar leggur ríkisstjórnin til að 150 þorskígildistonnum verði bætt við aflaheimildir til ráðstöfunar í Bakkafirði, að lagning bundins slitlags á Langanesströnd hefjist á næsta ári og að því ljúki eigi síðar en 2021 og í framhaldi verður hafin vegagerð um Brekknaheiði.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins þar sem sagt er frá samþykkt tillagna samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um eflingu byggðar við Bakkaflóa.

Samfélagssáttmáli

Þá er lagt til að skoðað verði fýsileiki þess að „koma á fót starfsstöð í náttúrurannsóknum á Bakkafirði sem hefði það hlutverk að rannsaka lífríki Bakkaflóa, þar með talið lífríki Finnafjarðar og nágrennis. Um væri að ræða útibú frá annaðhvort Náttúrufræðistofnun Íslands eða Náttúrustofu Norðausturlands.“

Stefnt er að því að gera samfélagssáttmála milli sveitarstjórnar, íbúasamtaka og ríkis með það að markmiði snúa við neikvæðri byggðaþróun með því að aðilar sáttmálans skuldbinda sig til þess að efla nærþjónustu og koma á átaki í umhverfismálum.

Jafnframt er lagt til að byggðin við Bakkaflóa verði tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir og verkefnisstjóri ráðinn til að stýra verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert