Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Einari Ágústssyni sem var sakfelldur fyrir að hafa svikið tugi milljóna króna út úr fjórum einstaklingum og dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi.
Einar, annar af hinum svonefndu Kickstarter-bræðrum, var fundinn sekur fyrir að hafa fengið fjóra einstaklinga og félag til þess að greiða sér samtals 74 milljónir króna sem áttu að renna inn í fjárfestingafélag í Bandaríkjunum. Peningana nýtti hann hins vegar samkvæmt ákæru í eigin þágu.
Í dómnum kemur fram að Einar ætti sér engar málsbætur, brotavilji hans hafi verið einbeittur og brot hans „skipulögð og úthugsuð“ og staðið yfir í langan tíma, eða rúmlega tvö ár.
Þrotabú félagsins Skajaquoda ehf., sem Einar stýrði, var enn fremur dæmt til þess að þola upptöku á 74 milljónum króna sem nýttar verða til þess að greiða miskabætur.
Einar og bróðir hans, Ágúst Arnar, hófu safnanir fyrir nýsköpunarverkefni á bandarísku hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter. Þegar um tuttugu milljónir króna höfðu safnast í einni söfnuninni var henni lokað, um svipað leyti og bræðurnir voru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.
Bræðurnir stofnuðu einnig trúfélagið Zuism hefur hlotið ansi mikla athygli undanfarin ár, og þá sérstaklega fyrir það loforð að endurgreiða meðlimum sóknargjöldin. Eftir nokkrar tafir greiddi Fjársýsla ríkisins trúfélaginu 53 milljónir króna í október í fyrra sem haldið hafði verið eftir frá því í febrúar vegna deilna um það hver færi með stjórn félagsins.